Sport

Ásthildur aftur í landsliðið

Jörundur Áki Sveinsson, þjálfari A-andsliðs kvenna, hefur valið leikmannahóp Íslands fyrir vináttulandsleikinn gegn Skotum, sem fram fer á McDiarmid Park í Perth 25. maí næstkomandi. Stærsta fréttin er örugglega sú að Ásthildur Helgadóttir, fyrirliði liðsins, er komin í hópinn á ný eftir erfið meiðsli sem hún hlaut í mars á síðasta ári, í vináttuleik gegn Skotum í Egilshöll. Ásthildur sleit þá krossbönd og er nýkomin af stað á ný en það er þó ekki að sjá á leik hennar. Ásthildur hefur nefnilega blómstrað í nýrri stöðu framherja með toppliði Malmö í sænsku úrvalsdeildinni, hefur þegar skorað 6 mörk í fyrstu fimm leikjunum og er sem stendur markahæsti leikmaður deildarinnar. Íslenska kvennalandsliðið hefur náð góðum árangri gegn Skotum í gegnum tíðina. Liðin hafa mæst alls fimm sinnum og hefur íslenska liðið unnið þrisvar, skoska liðið einu sinni og í eitt skipti skildu liðin jöfn. Fyrsti leikur A-landsliðs kvenna var einmitt gegn Skotum árið 1981. Síðasta viðureign liðanna var í Egilshöll í mars 2004 og vann þá íslenska liðið öruggan 5-1 sigur og Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði meðal annars þrennu í þeim leik. Skotar leika vináttulandsleik gegn Finnum í Turku í Finnlandi á föstudag og verða því væntanlega vel undirbúnir fyrir leikinn gegn Íslandi. Íslenska kvennalandsliðið spilar síðan sinn fyrsta leik undankeppni HM í ágúst þegar Hvít-Rússar koma í heimsókn á Laugardalsvöllinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×