Sport

Gríðarleg spenna í loftinu

Arsenal og Manchester United mætast í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar í dag klukkan tvö en gríðarleg spenna er í loftinu fyrir leikinn. Þetta er fimmti og síðasti úrslitaleikur ensku bikarkeppninnar sem fram fer á Þúsaldarvellinum í Cardiff en á næsta ári verður nýi Wembley- leikvangurinn opnaður og vígsluleikurinn verður sjálfur bikarúrslitaleikurinn. Gríðarleg spenna er fyrir þennan draumaúrslitaleik Arsenal og Man. Utd. „Litur leiksins er rauður og það gæti verið blóð,“ sagði dálkahöfundur The Guardian í morgun. Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Man. Utd., gat ekki á sér setið á blaðamannafundi fyrir leikinn í gær og vísaði til föðurhúsanna gagnrýni á sitt lið að það hefði leikið grófan fótbolta í deildarleik liðanna í vetur þegar Man. Utd batt enda á sigurgöngu Arsenal. Ferguson sagðist hafa farið í gegnum leikinn og t.d. hefði aðeins verið þrisvar sinnum brotið á Jose Antonio Reyes, framherja Arsenal, og varla sé hægt að líta á það sem verk keðjusagamorðingjans frá Texas. Úrslitaleikur Arsenal og Man. Utd verður sýndur beint á Sýn klukkan tvö en upphitun hefst kl. eitt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×