Sport

Maradona spáir Milan sigri

Knattspyrnugoðsögnin Maradona spáir því að AC Milan hampi Evrópumeistaratitlinum annað kvöld en þá mætir ítalska liðið Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Sá litli argentínski er staddur í Istanbul í Tyrklandi og verður viðstaddur leikinn. "Milan eru líklegri en leikmenn Liverpool hafa meiri áhuga á titlinum í forskot. Rafa Benitez veit hvernig á að fá leikmenn sína til að berjast svo Milan þarf að hafa mikið fyrir sigri. En ég held að þeim muni takast það." sagði Maradona í viðtali við Sky Italia sjónvarpsstöðina í dag. Einn leikmaður sem etur kappi um titilinn annað kvöld hefur leikið á móti Maradona. Paulo Maldini fyrirliði AC Milan barðist um ítalska meistaratitilinn við þennan besta knattspyrnumann sögunnar seint á áttunda áratugnum gegn Napoli. Maradona ber ómælda virðingu fyrir Maldini. "Ég fékk glæsahúð þegar ég sá hann æfa í dag. Hann hefur ennþá alveg aðdáunarverða ástríðu á leiknum eftir allan þennan tíma. Ítalía má vera mjög stolt af honum." bætti sá litli við. Af Maradona sjálfum er það að frétta að megrunin gengur vel og má meira að segja sjá svo á kallinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×