Sport

Reynsla á móti hungri í sigur

Í kvöld er einn af hápunktum knattspyrnuvertíðarinnar þegar Liverpool og AC Milan mætast í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. Milan varð síðast Evrópumeistari fyrir tveimur árum og hefur á að skipa gríðarlega reyndu liði, á meðan enska liðið hefur ekki sigrað í keppninni í 21 ár. Carlo Ancelotti, þjálfari ítalska liðsins, segir að reynt lið sitt geti náð að brjóta skipulagða vörn Liverpool á bak aftur og hefur ekki áhyggjur af að slakt gengi sinna manna í deildinni á Ítalíu í síðustu leikjum sitji í liðinu þegar í úrslitaleikinn er komið. "Leikur Liverpool gengur út á að hindra það að mótherjar þeirra geti athafnað sig á þeim svæðum sem þeir kjósa helst og þeir hafa gert það vel alla keppnina. Ef við hins vegar skorum snemma munum við neyða þá til að falla frá þeirri leikaðferð og sækja á okkur. Það myndi opna leikinn og það hentar okkur mun betur," sagði Ancelotti. Rafael Benitez, stjóri Liverpool, segir að sínir menn séu hvergi smeykir við Milan. "Þeir eru með mjög sterkt lið og mikla reynslu, en við höfum hungrið umfram þá og það mun tryggja okkur sigurinn. Við þurfum bara að passa að njóta dagsins, því við höfum engu að tapa og allt að vinna í þessum leik," sagði sá spænski.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×