Sport

Tryggvi inn og Rúnar hættur

Landsliðsþjálfarnir í knattspyrnu kynntu í gær landsliðshópinn sem mætir Ungverjum 4. júní og liði Möltu fjórum dögum síðar á Laugardalsvellinum. Þeir völdu 20 manna hóp þar sem Heiðar Helguson verður í banni í fyrri leiknum - og einfaldlega til að hafa vaðið fyrir neðan sig. "Okkur líst vel á slaginn. Við eigum góðan möguleika gegn þessum liðum og ætlum okkur sex stig úr leikjunum. Það verður erfitt að fylla skarð Hermanns, sem er meiddur, og Heiðars en við stefnum engu að síður á sigur." Landsliðinu hefur gengið afleitlega í þeim fimm leikjum sem lokið er í undankeppninni fyrir HM 2006 og aðeins uppskorið eitt jafntefli. Fyrirliðinn Eiður Smári Guðjohnsen var ekki með í síðasta leik, gegn Króötum, en Ásgeir býst við honum sterkum inn nú. "Hann er fyrirliði landsliðsins og býst ég við að hann mæti tvíefldur í þessa leiki. Hann gerði slíkt hið sama í samskonar júníleikjum fyrir tveimur árum, gegn Litháum og Færeyjum, og ég er viss um að hann gerir hið sama nú." Aðspurður um stöðu Rúnars Kristinssonar staðfestir Ásgeir að hann sé endanlega hættur í landsliðinu. "Hann treystir sér ekki í þetta lengur. Hann á fullt í fangi með að klára tímabilið í Belgíu." Um félaga hans hjá Lokeren, Arnar Grétarsson, sagði Ásgeir einfaldlega: "Hann hefur fengið mörg tækifæri hjá okkur og okkur finnst rétt að gefa yngri leikmönnum tækifæri til að sanna sig." Einn þeirra "ungu" er hinn 29 ára gamli Jóhannes Harðarson sem var nú valinn í landsliðshópinn í fyrsta sinn. "Valið á honum er ekkert einkennilegt. Ég hef alltaf haldið mikið upp á Jóhannes og af hverju á hann ekki að fá sitt tækifæri eins og hver annar?" Hinn nýliðinn í hópnum er Haraldur Freyr Guðmundsson sem hefur staðið sig vel í norska boltanum í vor - rétt eins og Jóhannes. Þá vekur einnig athygli að enginn sona Guðjóns Þórðarsonar er í hópnum en Bjarni og Þórður hafa lítið fengið að spila með sínum liðum undanfarið og Jóhannes Karl gefur ekki kost á sér eins og fram hefur komið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×