Innlent

Verjum mestu fé til menntamála

Út er komið ritið Education at a Glance, OECD Indication 2005. Þar má finna nýjustu tölur um margvíslegar upplýsingar um menntun í 30 aðildarríkjum OECD ásamt tölum frá 20 löndum utan samtakanna. Þar kemur m.a. fram að heildarútgjöld íslenskra stjórnvalda til menntamála námu 7,4% árið 2002. Þar með skipar Ísland sér í forystusæti hvað varðar útgjöld í þessum málaflokki. Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir þó að verja mætti meiri fjármunum í menntun kennara til að sjá betri árangur íslenskra nemenda. Spurður hvort þessar tölur komi sér á óvart segir hann svo ekki vera; það hafi legið fyrir að framlög til skólamála hér á landi hafi verið að vaxa á undanförnum árum, enda ekki vanþörf á eftir niðurskurðinn á síðasta áratug. Aðspurður hvernig standi á því að árangur íslenskra skólabarna sé ekki í samræmi við þessi útgjöld segist Eiríkur telja að árangur íslenskra nemenda sé almennt ágætur í alþjóðlegum samanburði. Hins vegar verði að hafa í huga að kennaramenntun á Íslandi sé styttri en í þeim löndum sem við séum gjarnan að bera okkur saman við, t.d. í Finnlandi. Þess vegna sé afar mikilvægt að menn skoði það með jákvæðum huga að lengja kennaramenntunina hér á landi og stuðla þannig að enn betri árangri íslenskra skólabarna.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×