Handbolti

Þetta er ekki málefni Fram

Hjálmar Vilhjálmsson, varaformaður handknattleiksdeildar Fram, hefur enn ekki tjáð sig um ásakanir Geirs Sveinssonar í sinn garð. Hann sést hér í leik með Fram gegn Val fyrir tveim árum síðan.
Hjálmar Vilhjálmsson, varaformaður handknattleiksdeildar Fram, hefur enn ekki tjáð sig um ásakanir Geirs Sveinssonar í sinn garð. Hann sést hér í leik með Fram gegn Val fyrir tveim árum síðan.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær hefur Geir Sveinsson, fyrrum landsliðsfyrirliði, sakað Hjálmar Vilhjálmsson, varaformann handknattleiksdeildar Fram, um að fara huldu höfði á spjallborði Valsmanna þar sem hann hafi reynt að skapa óróa með ummælum sínum og hafi einnig haldið því fram að hann væri gallharður Valsari. Sumt af því sem Hjálmar er ásakaður um að hafa skrifað á síðunni er það gróft að Valsmenn urðu að fjarlægja það af síðunni.

Notandi að nafni Rieg á spjallsíðu Vals var rakinn inn í fyrirtæki Hjálmars en framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir Hjálmar vera eina manninn í fyrir­tækinu í fyrir­tækinu sem hafi áhuga og vit á handbolta. Geir heldur því fram að Hjálmar hafi játað fyrir sér verknaðinn þegar hann gekk á hann með málið. Hjálmar vildi ekki ræða málið við Fréttablaðið en sagði sögu Geirs ósanna.

Fréttablaðið setti sig í samband við formann Fram, Guðmund B. Ólafsson, en Geir gekk á hans fund á sínum tíma og fór fram á afsökunarbeiðni frá Hjálmari fyrir sig og Val.

"Geir Sveinsson talaði við mig en í sjálfu sér kom ekkert út úr því. Ég sagði við hann að ef þetta væri rétt þætti mér það mjög leitt fyrir hönd félagsins," sagði Guðmundur, sem talaði við Hjálmar í kjölfarið. "Við ræddum saman og það samtal er á milli okkar. Annars er verið að bera sakir á Hjálmar og þetta kemur í sjálfu sér Fram ekkert við. Ég hef engar sannanir um eitt eða neitt og Hjálmar verður að svara því til sjálfur hvort þessar ásakanir séu sannar."

xx xx xx

Guðmundur segir að honum finnist ekki eðlilegt að menn séu að tjá sig á öðrum spjallsíðum, en þeir sem það geri verði að standi fyrir sínu sjálfir.

"Aðalstjórn félagsins mun ekkert gera í þessu máli en handknattleiksdeildin hlýtur að ræða þetta á sínum fundi þar sem um er að ræða varaformann deildarinnar. Annars er þetta ekki málefni Fram. Ef Hjálmar er að skrifa það sem hann er sakaður um þá er hann að skrifa það persónulega og ekki fyrir hönd félagsins á neinn hátt. Þannig að þetta er í sjálfu sér Fram óviðkomandi," sagði Guðmundur.

Kjartan Ragnarsson, formaður handknattleiksdeildar Fram, vildi lítið tjá sig um málið þegar eftir því var leitað í gær.

"Ég vísa þessu máli bara á Hjálmar enda hef ég ekkert kynnt mér það. Hjálmar hlýtur að geta svarað fyrir sig," sagði Kjartan, en eftir að blaðamaður hafði kynnt málið fyrir Kjartani sagði hann: "Mér finnst þetta ekki stórar ásakanir og málið ekki stórt. Þetta er alfarið mál Hjálmars og þú verður að tala við hann."

henry@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×