Sport

Fimmti ráspóllinn í röð hjá Alonso

Fernando Alonso virðist vera óstöðvandi þessa dagana og er enn og aftur á ráspól á morgun
Fernando Alonso virðist vera óstöðvandi þessa dagana og er enn og aftur á ráspól á morgun NordicPhotos/GettyImages

Heimsmeistarinn Fernando Alonso verður á ráspól í kanadíska kappakstrinum í Montreal á morgun eftir að hann náði besta tímanum í tímatökunum í dag. Þetta er í fyrsta skipti sem hann er á ráspól í þessari keppni, en í fimmta skipti í röð á þessu keppnistímabili sem hann ræsir fyrstur.

Giancarlo Fisichella, félagi Alonso hjá meisturum Renault, náði öðrum besta tímanum í dag, Kimi Raikkonen hjá McLaren náði þriðja besta tímanum og Jarno Trulli á Toyota varð fjórði. Michael Schumacher hjá Ferrari náði fimmta besta tímanum, en náði aldrei að ógna Renault-mönnunum.

Heimsmeistarinn hefur aldrei náð hærra en í fjórða sæti í Kanada, en er viss um að það muni breytast á morgun. "Þetta voru fullkomin úrslit fyrir okkur í dag. Við höfum verið mjög sterkir í byrjun tímabils og erum staðráðnir í að verja titilinn. Við vitum hinsvegar að Montreal-brautin hentar Ferrari mjög vel og því verðum við að vera við öllu búnir á morgun," sagði hinn 24 ára gamli Alonso, sem leitast við að næla í fjórða sigur sinn í röð. Kimi Raikkönen sigraði í þessari keppni í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×