Menning

Svartur fugl á ferð og flugi

Forboðin ást. Leikritið Svartur fugl tekst á við ögrandi mál.
Forboðin ást. Leikritið Svartur fugl tekst á við ögrandi mál.
Leikritið eldfima Svartur fugl var sýnt í Hafnarfjarðarleikhúsinu í haust við góðar undirtektir gagnrýnenda og áhorfenda. Nú getur landsbyggðin fagnað þar sem Kvenfélagið Garpur, Hafnar­fjarðarleikhúsið og Flugfélag Íslands hafa ljáð verkinu vængi og gert leikhópnum kleift að ferðast um landið í janúar næstkomandi. Verkið verður sýnt á Egilsstöðum, á Ísafirði og í Vestmannaeyjum og verður sett upp tvisvar á hverjum stað.

Leikritið Svartur fugl er eftir leikskáldið David Harrower, en er sýnt hér á landi í íslenskri þýðingu Hávars Sigurjónssonar. Leikritið segir frá þeim Unu og Ray. Þau áttu í forboðnu ástarsambandi fyrir fimmtán árum en hafa ekki séð hvort annað síðan sambandinu lauk. Ray er því brugðið þegar Una hefur uppi á honum. Hún leitar svara varðandi fortíðina og samband þeirra og endurnýjuð kynni þeirra leiða óhjákvæmilega til uppgjörs. Viðfangsefni sýningar­innar er ögrandi, þó að ekki verði farið nánar út í það hér, og stykkið vekur upp áleitnar spurningar um sakleysi, vald, sekt og kynlíf.

Leikhúsunnendur á landsbyggðinni geta því farið að hugsa sér gott til glóðarinnar, en taka skal fram að verkið er ekki ætlað börnum yngri en 14 ára. Verkið verður sýnt 12. og 13. janúar í Sláturhúsinu – Menningarsetri á Egilsstöðum, 19. og 20. janúar í Edinborgarhúsinu á Ísafirði og 26. og 27. janúar í Leikhúsinu í Vestmannaeyjum. Miðaverð er 2.900 kr. og miðasala fer fram á miðavefnum www.midi.is og við innganginn.

- vþ






Fleiri fréttir

Sjá meira


×