Viðskipti erlent

Danske Bank telur að 100.000 störf hverfi í Danmörku

Danske Bank telur að 100.000 störf hverfi í Danmörku á næstu tveimur árum. Í nýrri skýrslu bankans um þróun efnahagsmála segir að kreppa verði í landinu næstu tvö árin og að í árslok 2010 muni 115.000 manns verða atvinnulausir í landinu.

Samhliða þessari spá hefur Vinnumálastofnun Danmerkur sent frá sér nýjar upplýsingar sem sýna að hópuppsagnir hafi ekki verið fleiri síðan árið 1993.

Á business.dk segir Hernrik Christiansen skrifstofustjóri Vinnumálastofnunnar Norður-Sjálands að þeim sé nú tilkynnt um fjórar til sex hópuppsagnir í hverri viku. Frá áramótum séu hópuppsagnirnar orðnar 55 talsins og nái til 2.500 manns.

Sömu sögu er að segja af öllu landinu. Þannig má nefna að allt árið í fyrra voru hópuppsagnir í Danmörku 46 talsins. En bara á síðustu þremur mánuðum í ár eru þær orðnar 65 talsins.

Börsen greinir frá fyrrgreindri skýrslu Danske Bank en þar kemur m.a. fram að búist er við samdrætti í landsframleiðslu landsins í ár upp á 0,8% og 0,7% á næsta ári. Áður hafði bankinn búist við hagvexti upp á 0,5% í ár og 0,2% á næsta ári.

 









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×