Erlent

Bandaríkin og Kína sögð hindra lausnir

Mótmæli í Brussel Hópur mótmælenda kom saman fyrir utan byggingu leiðtogaráðs Evrópusambandsdins í Brussel í gær, með grímur nokkurra helstu leiðtoga sambandsins.
Mótmæli í Brussel Hópur mótmælenda kom saman fyrir utan byggingu leiðtogaráðs Evrópusambandsdins í Brussel í gær, með grímur nokkurra helstu leiðtoga sambandsins.

Evrópu­sambandið hvetur ráðamenn í Bandaríkjunum og Kína til þess að taka af skarið og setja sér mark­mið í loftslagsmálum, svo loftslags­ráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn verði ekki árangurs­laus.

Evrópusambandið segir tregðu þessara tveggja ríkja koma í veg fyrir að samningar um ráðstafanir í loftslagsmálum geti tekist á ráðstefnunni sem haldin verður um miðjan næsta mánuð.

Aðeins tvær vikur eru þangað til ráðstefnan hefst, og enn hafa ekki ákveðin markmið verið sett fram af hálfu Kína og Bandaríkjanna.

Bandaríkin hafa enn ekki gefið nein loforð um hve mikið þau ætla að draga úr losun gróðurhúsa­lofttegunda. Þar er beðið eftir þinginu, sem hefur í smíðum frumvarp um loftslagsmál. Meðan það frumvarp hefur ekki verið afgreitt getur Barack Obama forseti ekki gefið nein loforð.

Kínverjar hafa heldur ekki sett fram nein loforð önnur en þau að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda eftir því sem hægt er. Kínverjar eru þeirrar skoðunar að þróunarríki eigi ekki að gefa upp ákveðin markmið heldur láta efnahagsgetu ráða hve langt er gengið ár hvert.

Vísindamenn á vegum Sameinuðu þjóðanna hafa mælt með því að auðug iðnríki dragi úr losun um 25 til 40 prósent til ársins 2020, frá því sem var árið 1990.

Evrópusambandið hefur heitið því að draga úr losun um 30 prósent, ef önnur ríki fylgja því fordæmi, og síðan draga að mestu úr allri losun fyrir árið 2050, eða um 95 prósent.

Bandaríkin hafa ekki hugsað sér að ganga svo langt, heldur draga úr losun um aðeins 3,5 prósent.

Evrópusambandið hefur hins vegar ekki enn lofað fátækari þróunarríkjum fjárstuðningi til þess að auðvelda þeim að draga úr losun. Evrópusambandið hefur aðeins lofað því að taka þátt í að fjármagna alþjóðlegan sjóð í þessu skyni, án þess að nefna ákveðnar upphæðir.

Ekki er lengur reiknað með að á ráðstefnunni verði afgreitt bindandi samkomulag, heldur aðeins pólitísk yfirlýsing um markmið. Væntanlega verður stefnt að því að þau markmið verði útfærð nánar á næsta ári.

gudsteinn@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×