Viðskipti innlent

Össur hf. vann tvenn alþjóðleg hönnunarverðlaun

Össur hf. vann tvenn verðlaun í hinni virtu alþjóðlegu hönnunarsamkeppni sem kennd er við Red Dot samtökin. Í ár voru 4433 vörur frá sextíu löndum sem kepptu um þessi virtu verðlaun í átján flokkum.

Í tilkynningu segir að Össur fékk fyrstu verðlaun fyrir hönnun á gervifætinum Proprio Foot í flokknum Life Science and Medicine. Proprio gervifóturinn er sá fyrsti sinnar tegundar sem notast við gervigreind og bregst fóturinn sjálfkrafa við ólíkum aðstæðum. Þannig er mun auðveldara fyrir notandann að ganga upp og niður stiga,  eða brekku þar sem fóturinn aðlagast þeim aðstæðum sem notandinn er í.

Össur fékk einnig fyrstu verðlaun í sama flokki fyrir Rebound Air Walker stuðningsspelkuna sem kemur í staðinn fyrir gips  og er notuð í kjölfar margvíslegra aðgerða og beinbrota. Spelkan eykur þægindi og veitir aukna vernd hvort sem er strax eftir aðgerð eða í endurhæfingu.

„Össur hefur í fjóra áratugi unnið að því að auka hreyfigetu fólks og því lítum við á Red Dot verðlaunin sem mikinn heiður. Við munum áfram leggja okkur fram við að hanna og þróa hágæða vörur sem hjálpa fólki að njóta lífsins án takamarkana,“ segir Jón Sigurðsson forstjóri.

Össur tekur þátt í hátíðinni Hönnunarmars sem haldin er dagana 24. til 27. mars á fjölmörgum stöðum í Reykjavík. Félag vöru- og iðnhönnuða býður gesti velkomna á sýninguna Vöruhús á Laugavegi. Þar sýna yfir tuttugu vöru- og iðnhönnuðir nýjar og spennandi vörutegundir og þar mun Össur kynna Proprio gervifótinn og Rebound Air Walker spelkuna sem fengu Red Dot verðlaunin.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×