Viðskipti innlent

Aðalhagfræðingur Seðlabankans hefur áhyggjur af ríkisfjármálunum

Hafsteinn Hauksson skrifar
Þórarinn G., aðalhagfræðingur Seðlabankans, hefur áhyggjur af því að of mikill slaki sé á ríkisfjármálunum.
Þórarinn G., aðalhagfræðingur Seðlabankans, hefur áhyggjur af því að of mikill slaki sé á ríkisfjármálunum. Úr Klinkinu
Aðalhagfræðingur Seðlabankans hefur áhyggjur af því að of lítið aðhald sé í ríkisfjármálunum nú og óttast að stjórnvöld séu að missa úthaldið við að ná niður halla og skuldum ríkisins.

Þegar bankarnir hrundu myndaðist mikið ójafnvægi í fjármálum hins opinbera, og risavaxinn halli varð á ríkisrekstrinum. Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, segir í nýjasta þætti Klinksins að ekki sé hægt að segja annað en vel hafi tekist til við að vinna á hallanum og stjórnvöld haldið á spöðunum við hagstjórnina - þar til nú.

„Núna virðast stjórnvöld hins vegar vera að slaka aðeins á, og þau segja það beinlínis," segir Þórarinn. „Það er ekki eins aðhaldssöm ríkisfjármálastefna og að var stefnt í fyrri áætlunum. Ég hef áhyggjur af því. Ég hefði heldur viljað að menn héldu fyrra plani og næðu niður hallanum og skuldunum hraðar en þeir ætla að gera."

Þórarinn bendir á að Evrópulönd með svipað skuldsetningarhlutfall og íslenska ríkið séu að lenda í gríðarlegum vanda og þau séu undir þrýstingi um að skera hratt niður. Gjaldeyrishöftin veiti Íslandi sérstakt skjól um þessar mundir, en það vari ekki að eilífu.

„Þess vegna hefði ég haldið að það væri skynsamlegra að nota þetta skjól sem við erum í núna til þess að halda fyrri áætlunum og fara hraðar niður með hallann og ná fyrr tökum á skuldunum."

En er hann að segja að það séu lausatök í ríkisfjármálunum?

„Nei, ég myndi ekki segja það miðað við það sem hefur verið að gerast. Það hefur verið aðhald, það hefur verið skorið niður og hallinn hefur minnkað. En ég hef áhyggjur af því að menn séu eitthvað að missa úthaldið í þessu."

Hægt er að horfa á nýjasta þátt Klinksins í heild sinni hér.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×