Sport

Trausti setti Íslandsmet í 400 metra hlaupi á Stórmóti ÍR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Trausti Stefánsson.
Trausti Stefánsson. Mynd/Anton
Trausti Stefánsson úr FH setti Íslandsmet í 400 m hlaupi á sextánda Stórmóti ÍR sem fór fram í Laugardalshöll um helgina. Hápunktar mótsins voru þetta Íslandsmet og Færeyjamet í þrístökki karla.

Trausti hljóp á 48,23 sekúndum en fyrra metið átti Sveinn Elías Elíasson sem hljóp 400 metrana á 48,33 sekúndum árið 2008.

Oddur Sigurðsson á betri tíma innanhúss, 47,64 sekúndur, en sá árangur náðist á yfirstærð á braut. Til að árangur í þessari grein fáist viðurkenndur má brautin ekki vera lengri en 200 metrar.

Össur Debes Eiriksfoss setti Færeyjamet í þrístökki þegar hann stökk 14,05 metra og vann þrístökkið.

Tvö aldursflokkamet litu einnig dagsins ljós á mótinu en þau settu Hilmar Örn Jónsson ÍR í flokki 16 til 17 ára pilta þegar hann varpaði kúlunni 16,28 metra og Þórdís Eva Steinsdóttir úr FH þegar hún hljóp 600 metra á 1:46,36 mínútum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×