Sport

Helga Margrét setti nýtt Íslandsmet í Tallinn | Bætti metið um 93 stig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helga Margrét með þjálfara sínum Agne Bergvall frá Svíþjóð.
Helga Margrét með þjálfara sínum Agne Bergvall frá Svíþjóð. Mynd/Fésbókarsíða Helgu Margrétar
Ármenningurinn Helga Margrét Þorsteinsdóttir setti nýtt Íslandsmet í fimmtarþraut í fyrstu fimmtarþraut sinni á þessu innanhússkeppnistímabili í dag en hún endaði í öðru sæti á EAA Permit móti í Tallinn í Eistlandi.

Helga Margrét fékk 4298 stig og bætti gamla metið um 93 stig. Helga Margrét tryggði sér metið með því að hlaupa 800 metrana á

2.12,97 mínútum sem er mun hraðari tími en þegar hún setti gamla metið.

Helga Margrét hljóp hraðar en Lettinn Laura Ikauniece en það dugði ekki til sigurs. Helga Margrét var 48 stigum á eftir.

Helga hefði örugglega viljað gera betur í 60 metra grindarhlaupi og langstökki en það er ekki hægt að biðja um mikið meira en nýtt og glæsilegt Íslandsmet í sinni fyrstu þraut á árinu.

Helga Margrét stökk 5,59 metra í langstökki og fékk fyrir það 726 stig. Hún fór þar með niður í annað sætið og var 96 stigum á eftir Lauru Ikauniece fyrir lokagreinina.

Helga stökk 5,50 metra í fyrsta stökki, 5,40 metra í öðru stökki og loks 5,59 metra í lokastökkinu sínu.

Hún hafði stokkið lengst 5,68 metra á þessu ári og náði að stökkva 5,63 metra þegar hún setti gamla Íslandsmetið í Stokkhólmi í mars 2010.

Fimmtarþrautin hjá Helgu Margréti í dag:

60 metra grindarhlaup - 9,03 sekúndur (904 stig)

Hástökk - 1,74 metrar (903 stig)

Kúluvarp - 14,74 metrar (843 stig)

Langstökk - 5,59 metrar (726 stig)

800 metra hlaup - 2.12,97 mínútur (922 stig)

Samtals: 4298 stig




Fleiri fréttir

Sjá meira


×