Sport

Erfitt að fylgja í fótspor stóra bróður

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þetta er Marko Djokovic.
Þetta er Marko Djokovic. Nordic Photos / Getty Images
Marko Djokovic, yngri bróðir Serbans Novak Djokovic, segir að það verði erfitt fyrir sig að ætla að feta í fótspor stóra bróður.

Djokovic eldri er í dag efsti maður á heimslistanum í tennis og hefur unnið fjögur af fimm síðustu stórmótunum, síðast í Ástralíu í síðasta mánuði.

Marko er í 868 sætum fyrir neðan á heimslistanum og segir að það geti bæði hjálpað og skemmt fyrir að heita Djokovic. „Væntingarnar eru miklar og það er mjög erfitt að uppfylla þær. En ég er að reyna að gera mitt besta," sagði Marko.

Hann féll úr leik í fyrstu umferð á móti í Dúbæ á dögunum en hann er nýbyrjaður að spila á ný eftir að hafa verið frá í tíu mánuði vegna meiðsla á úlnliði.

„Ég held að hann verði góður," sagði Novak. „Hann er efnilegur og þetta er honum augljóslega í blóð borið."

„Það eru forréttindi að eiga brórðu eins go hann," sagði Marko. „Hann hjálpar mér mikið og veit auðvitað mikið um tennis. Hann er að reyna að hvetja mig áfram og vill hjálpa mér að bæta mig."

„Mig skortir ekkert fjárhagslega og fæ alla þá þjálfara sem ég vil. En það er líka ýmislegt neikvætt, eins og pressan sem fylgir þessu nafni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×