Enski boltinn

Ragnar með þrennu og Valur í undanúrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Anton
Valsmenn eru komnir í undanúrslit Reykjavíkurmóts karla í fótbolta eftir 5-0 stórsigur á Þrótti í kvöld í lokaleik B-riðils Reykjavíkurmótsins. Ragnar Þór Gunnarsson skoraði þrennu í leiknum.

Valsmenn urðu að vinna leikinn til að tryggja sér sæti í undanúrslitum keppninnar á kostnað Víkinga en Fylkir hafði áður tryggt sér sigur í riðlinum eftir 4-1 sigur á Víkingsliðinu. Fylkir og Valur verða því fulltrúar b-riðilsins í undanúrslitum Reykjavíkurmótsins.

Ragnar Þór Gunnarsson, Kristinn Ingi Halldórsson og Magnús Már Lúðvíksson komu Val í 3-0 í fyrri hálfleik en mark Magnúsar kom beint úr aukaspyrnu.

Ragnar Þór bætti síðan við tveimur mörkum í seinni hálfleiknum og innsiglaði þar með þrennu sína.

Ragnar Þór Gunnarsson, sem verður tvítugur á þessu ári, var sjóðheitur í Reykjavíkurmótinu en hann skoraði sjö mörk í fjórum leikjum í riðlakeppninni.

Upplýsingar um markaskorar í leiknum eru fengnar af vefsíðunni fótbolti.net.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×