Innlent

Lögmaður í Kaupþingsmálinu fær ekki að verja einn ákærðu

Jóhannes Stefánsson skrifar
Kaupþingsmenn eru ákærðir fyrir markaðsmisnotkun.
Kaupþingsmenn eru ákærðir fyrir markaðsmisnotkun. Vísir/GVA
Jóhannes Bjarni Björnsson hrl. fær ekki að halda uppi vörnum fyrir Ingólf Helgason í Kaupþingsmálinu vegna hugsanlegra tengsla hans við Bjarka Diego, einn þeirra sem er ákærður í málinu.

Þetta kom fram í fyrirtöku sem fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Sérstakur saksóknari fór þess á leit að Jóhannes fengi ekki að verja Ingólf vegna þess að ekki væri loku fyrir það skotið að hann yrði kallaður fyrir dóm sem vitni í málinu.

Ástæða þess er sú að skýrsla um símtal á milli Jóhannesar og Bjarka var lögð fram fyrir dóminn í dag, sem gaf saksóknara mögulegt tilefni til þess að Jóhannes myndi fá réttarstöðu vitnis, þó að það lægi ekki fyrir að svo stöddu.

Dómarinn féllst á þessa beiðni saksóknara en allir verjendurnir í málinu mótmæltu þessari tilhögun. Jóhannes Bjarni taldi að skýrslan væri of seint fram komin og að Ingólfur myndi ekki njóta réttlátrar málsmeðferðar vegna þessa.

Jóhannes mun óska eftir því að Hæstiréttur skeri úr um réttmæti ákvörðunar héraðsdóms.

Þetta kemur fram á vef RÚV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×