Fótbolti

Tvö rauð spjöld í sigri Víkings á Val

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ólafur Þórðarson, þjálfari Víkings.
Ólafur Þórðarson, þjálfari Víkings.
Víkingur vann Val, 1-0, riðli 3 í A-deild Lengjubikarsins í fótbolta í kvöld en leikurinn fór fram í Egilshöll.

Markalaust var í hálfleik en Agnar Darri Sveinsson, sem var á láni hjá Magna á Grenivík síðasta sumar, skoraði sigurmarkið eftir tólf mínútna leik í seinni hálfleik, 1-0.

Ekki voru fleiri mörk skoruð en fjörið var þó ekki búið. Óttar Steinn Magnússon, miðvörður Víkinga, fékk tvö gul spjöld á skömmum tíma eftir markið fyrir tvö brot og var rekinn af velli.

Valsmönnum tókst ekki að nýta sér liðsmuninn og svo misstu þeir sjálfir Danann Mads Nielsen af velli þegar um 15 mínútur voru til leiksloka.

Daninn reif kjaft í tvígang við Erlend Eiríksson, dómara leiksins, sem sýndi Nielsen gula spjaldið í bæði skiptin og rak hann í sturtu.

Valsmenn fengu nokkur dauðafæri til að jafna metin undir lok leiksins. Kolbeinn Kárason fékk skalla á markteig eftir frábæra fyrirgjöf Bjarna Ólafs Eiríkssonar en hitti ekki ramann.

Í uppbótartíma fór Ingvar Kale, markvörður Víkinga, í skógarhlaup langt út á völl en Alan Lowing kastaði sér fyrir skot Valsmanna á autt markið og bjargaði í horn.

Ingvar bætti svo upp fyrir mistökin með skemmtilegum tilþrifum og fallegum vörslum á lokasekúndunum og sigur Víkinga staðreynd.

Víkingar skutu sér með sigrinum á topp riðils 3. Þeir eru með sjö stig eftir tvo leiki en Valsmenn með þrjú stig. Stjarnan getur jafnað við Víkinga á toppnum í kvöld en hún mætir 1. deildar liði KV klukkan 21.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×