Íslenski boltinn

Spá FBL og Vísis: Stjarnan hafnar í 4. sæti

Veigar Páll Gunnarsson og Garðar Jóhannsson eru illviðráðanlegir á góðum degi.
Veigar Páll Gunnarsson og Garðar Jóhannsson eru illviðráðanlegir á góðum degi. Vísir/Valli
Þegar menn horfðu á Stjörnuliðið í byrjun árs  sáu þeir lið sem gæti hæglega barist um Íslandsmeistaratitilinn í ár. En svo hurfu tveir af bestu og mikilvægustu mönnum liðsins, Jóhann Laxdal og HalldórOrriBjörnsson, í atvinnumennsku og nú er bjartsýnin ekki jafn mikil í Garðabænum.

Það hjálpar heldur ekki til að tveir af allra bestu leikmönnum liðsins núna, MichaelPræst og GarðarJóhannsson, byrja ekki mótið vegna meiðsla. Það er hætt við því að Stjarnan geti átt í basli strax í byrjun Pepsi-deildarinnar og mögulega misst snemma af lestinni.

Þrátt fyrir að koma Stjörnunni í Evrópukeppni í fyrsta sinn í sögu félagsins var Logi Ólafsson látinn fara og RúnarPállSigmundsson, aðstoðarmaður Loga, tók við liðinu. Hann er langt frá því að vera jafnreyndur og Logi en hann er ungur og efnilegur þjálfari sem er í miklum metum í Garðabænum.

Evrópubarátta verður líklega hlutskipti Stjörnunnar enn eitt árið sem er vissulega svekkjandi miðað við hvernig hlutirnir litu út í byrjun árs. Fleiri ungir Garðbæingar ættu að fá tækifæri í sumar og þar má finna nokkra virkilega efnilega spilara.

Gengi Stjörnunnar síðustu sex tímabil:

2008 (B-deild, 2. sæti)

2009 (7. sæti)

2010 (8. sæti)

2011 (4. sæti)

2012 (5. sæti)

2013 (3. sæti)      

Íslandsmeistarar: Aldrei (3. sæti 2013)

Bikarmeistarar: Aldrei (úrslit 2012 og 2013)

Tölur Stjörnunnar í Pepsi-deildinni 2013:

Mörk skoruð: 5. sæti (1,55 í leik)

Mörk á sig: 2. sæti (1,14 í leik)

Stig á heimavelli: 2. sæti (28 af 84,8%)

Stig á útivelli: 5. sæti (15 af 45,5%)

Nýju mennirnir:

Arnar M. Björgvinsson (Breiðabl.)

Niclas Vemmelund (Danmörku)

Pablo Punyed (Fylki)

Jóhann Laxdal fór til Noregs í atvinnumennsku.Vísir/Valli


EINKUNNASPJALDIÐ

Vörnin: 4 stjörnur

Logi Ólafsson fékk það verkefni í fyrra að koma varnarleiknum hjá Stjörnunni í lag en hann var oft í aukahlutverki hjá liðinu á fyrstu árunum í Pepsi-deildinni. Stjarnan spilaði, og spilar, oftar en ekki mjög góðan fótbolta en varnarleikurinn fór illa með liðið.

Logi gerði nákvæmlega það sem þurfti að gera og fékk Stjörnuliðið á sig næstfæst mörk í Pepsi-deildinni síðastliðið sumar. Það hefur svo haldið áfram að byggja á þeim sterka varnarleik og hefur lítið verið að fá á sig mörk á vormótunum.

Martin Rauschenberg var fenginn aftur til liðsins og verður hann við hlið Daníels Laxdals í miðverðinum. Það munar mikið um Jóhann Laxdal sem farinn er í atvinnumennsku en annar Dani, Niclas Vemmlund, var fenginn til að leysa hann af. Daninn er ekki jafn öflugur og Jóhann sóknarlega en getur þó varist og hefur vaxið með hverjum leik.

Hörður Árnason mun væntanlega mæta til leiks í vinstri bakvarðarstöðuna um leið og hann er heill en þangað til leysir Pablo Punyed þá stöðu. Hann var þó fenginn til liðsins til að hjálpa til á miðjunni.

Sóknin: 4 stjörnur

Í Garðari Jóhannssyni og Veigari Páli Gunnarssyni  er Stjarnan með framherjapar sem á að vera illviðráðanlegt. Þeir skiluðu sínum fjórum mörkunum hvor í Pepsi-deildinni í fyrra sem var töluvert undir væntingum en þeir hafa litið mun betur út í vetur og vor og eru líklegir til afreka. Garðar er þó meiddur og missir af fyrstu leikjunum og er þar skarð fyrir skildi.

Arnar Már Björgvinsson og Ólafur Karl Finsen hjálpa Veigari Páli til að byrja með í framlínunni en í Garðabænum eru menn mjög spenntir fyrir sumrinu hjá Ólafi Karli. Þar er spilari á ferð sem getur svo hæglega orðið stjarna í deildinni og farið lengra hafi hann áhuga á því sjálfur.

Þjálfarinn: 3 stjörnur

Rúnar Páll Sigmundsson, sem var aðstoðarmaður Loga Ólafssonar í fyrra, var ráðinn aðalþjálfari liðsins eftir að Logi Ólafsson var látinn fara. Hann fær nú það spennandi verkefni að reyna að taka næsta skref með Stjörnuliðið og stýra því í fyrsta skipti í Evrópukeppni.

Rúnar var ekki langt frá því að bjarga frekar slöku HK-liði frá falli úr efstu deild 2008 og hafnaði síðan með liðið í þriðja sæti 1. deildar árið eftir. Hann fór svo til Noregs og þjálfaði Levanger í neðri deildum þar í landi áður en hann sneri aftur heim.

Hann stýrði 2. flokki félagsins í fyrra til Íslandsmeistaratitils og þekkir vel til yngri leikmanna í Garðabænum. Það er smá pressa á honum frá Garðbæingum að nota heimamennina og þeir munu eflaust fá fleiri tækifæri í sumar.

Breiddin: 3 stjörnur

Breiddin er ekki jafn mikil hjá Stjörnunni og á síðasta tímabili. Það er enginn Kennie Chopart sem hægt er að senda inn á en Daninn öflugi, sem var eins konar besti tólfti maður síðasta árs ef svo má segja, er farinn frá liðinu.

Breiddin felst aðallega í spennandi heimamönnum, reyndum sem óreyndum, en spilarar á borð við Baldvin Sturluson eru menn sem styrkja hvaða hóp sem er. Hann mun þó líklega byrja mótið vegna meiðsla annarra leikmanna.

Í varnarleiknum eru Garðbæingar með einn efnilegasta miðvörð deildarinnar, Aron Rúnarsson Heiðdal, á bekknum en stuðningsmenn Stjörnunnar vilja ólmir sjá hann fá tækifæri. Fleiri ungir strákar á borð við Þorra Geir Rúnarsson og Snorra Pál Blöndal eru menn sem Rúnar getur hent inn á til að sprengja upp leiki. Stjarnan er líka enn í leit að arftaka Halldórs Orra og gæti hann dottið inn rétt áður en glugganum verður lokað.

Liðsstyrkurinn: 3 stjörnur

Arnar Már Björgvinsson er kominn aftur heim í Stjörnuna frá Breiðabliki þar sem hann náði aldrei fótfestu. Arnar hefur spilað ágætlega í undirbúningsmótunum og virðist einfaldlega líða betur í bláu. Hann fær líka stærra hlutverk hjá liðinu, sérstaklega í byrjun móts, vegna meiðsla lykilmanna.

Niclas Vemmlund tekur stöðu Jóhanns Laxdals í hægri bakverðinum en þar er flottur varnarmaður á ferð þó hann sé ekki jafn öflugur sóknarlega og forveri hans. Þá er Pablo Punyed kominn frá Fylki en hann átti góða spretti í Árbænum síðasta sumar.

Hefðin: 3 stjörnur

Það eru ekki mörg ár síðan enginn var að spá í Stjörnunni. Eftir að liðið féll úr úrvalsdeildinni á lokadegi haustið 2000 þegar Andri Sigþórsson sendi það niður með fernu í Garðabænum tóku við erfiðir tímar.

Bjarni Jóhannsson kom liðinu upp haustið 2008 og hafa Stjörnumenn verið eitt af betri liðum deildarinnar og sannarlega eitt það skemmtilegasta undanfarin fimm ár. Leiftrandi sóknarleikur þess hefur heillað marga og leikgleðin fer ekki fram hjá neinum.

Mikil hefð hefur skapast á stuttum tíma en heimaleikir félagsins eru vel sóttir og munar mikið um bestu stuðningsmannasveit landsins, Silfurskeiðina. Félagið leikur nú í Evrópukeppni í fyrsta skipti í sögu félagsins. Uppgangurinn er hraður og öflugur í Garðabæ en þar hefur verið haldið vel á spilunum.

Lykilmaðurinn: Michael Præst

Presturinn, eins og hann er kallaður, kom eins og stormsveipur inn í deildina í fyrra og vakti mikla athygli nánast frá fyrsta leik. Hann var einn af albestu leikmönnum deildarinnar síðasta sumar og stór ástæða þess að Stjörnuliðið komst loks yfir Evrópuþröskuldinn.

Præst er erfiður viðureignar á miðjunni. Mikill baráttuhundur sem les leikinn ótrúlega vel og býr yfir miklum leikskilningi. Það eru fáir miðjumenn betri að brjóta niður sóknir andstæðinganna og svo er hann gífurlega fljótur að koma boltanum aftur í leik.

Daninn er í miklum metum hjá Stjörnunni eftir frábært fyrsta tímabil, bæði innan sem utan vallar. Honum var fyrr í vetur afhent fyrirliðabandið og verður hann fyrirliði Stjörnunnar í sumar.

Fylgstu með þessum: Heiðar Ægisson

Hann er fæddur árið 1995 og verður við hlið Præst á miðjunni þegar Daninn verður orðinn heill. Það er vægt til orða tekið þegar sagt er að spenna sé fyrir þessum unga miðjumanni í Garðabænum.

Heiðar er miðjumaður sem getur hlaupið teiga á milli, er með mikinn leikskilning og getur bæði brotið niður sóknir og hafið þær. Hann klárar hlaupin sín vel inn í teig og má búast við nokkrum mörkum frá honum í sumar.

Spá Vísis og Fréttablaðsins fyrir Pepsi-deild karla sumarið 2014:

1. sæti ???

2. sæti ???

3. sæti ???

4. sæti Stjarnan

5. sæti Valur

6. sæti ÍBV

7. sæti Þór

8. sæti Fram

9. sæti Keflavík

10. sæti Víkingur

11. sæti Fylkir

12. sæti Fjölnir


Tengdar fréttir

Spá FBL og Vísis: Fram hafnar í 8. sæti

Fram er einfaldlega stærsta spurningamerkið fyrir tímabilið enda kemur liðið gríðarlega mikið breytt til leiks, með nýjan þjálfara og hreinlega nýja stefnu í sínum knattspyrnumálum.

Spá FBL og Vísis: ÍBV hafnar í 6. sæti

Eyjamenn mæta til leiks með nýjan þjálfara í Pepsi-deild karla í fótbolta og hafna í sjötta sæti ef marka má spá íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis. Pepsi-deildinni hefst á sunnudaginn.

Spá FBL og Vísis: Keflavík hafnar í 9. sæti

Keflvíkingar verða áfram í neðri hluta Pepsi-deildarinnar ef marka má spá íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis en liðið heldur þó sæti sínu í deildinni. Keflavíkurliðið er spurningamerki en það hefur þó verið að leika ágætlega á undirbúningstímabilinu.

Spá FBL og Vísis: Fjölnir hafnar í 12. sæti

Fréttablaðið og Vísir telur niður í Pepsi-deild karla í knattspyrnu sem hefst sunnudaginn 4. maí. Nýliðum Fjölnis er spáð neðsta sæti deildarinnar og þar með falli úr henni í haust.

Spá FBL og Vísis: Fylkir hafnar í 11. sæti

Ef marka má spá Fréttablaðsins og Vísis fyrir Pepsi-deildina í knattspyrnu 2014 þá lýkur fimmtán ára samfelldri veru Fylkis í úrvalsdeildinni í haust.

Spá FBL og Vísis: Þór hafnar í 7. sæti

Þórsarar héldu sæti sínu í Pepsi-deildinni í fyrra og gera það nokkuð auðveldlega aftur í sumar ef spá íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis verður að veruleika.

Spá FBL og Vísis: Víkingur hafnar í 10. sæti

Ef marka má spá íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis halda nýliðar Víkings sæti sínu í Pepsi-deild karla með naumindum en liðið er komið aftur í deild þeirra bestu eftir tveggja ára fjarveru.

Spá FBL og Vísis: Valur hafnar í 5. sæti

Valsmenn sigldu lygnan sjó í Pepsi-deildinni á síðasta ári og samkvæmt spá íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis verður niðurstaðan sú sama hjá Valsmönnum í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×