Íslenski boltinn

Markaþættir eftir allar umferðir Borgunarbikarsins

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, og Hjörvar Hafliðason, sjónvarpsstjóri Stöðvar 2 Sport, skrifa undir samninginn í dag.
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, og Hjörvar Hafliðason, sjónvarpsstjóri Stöðvar 2 Sport, skrifa undir samninginn í dag. vísir/stefán
Í dag skrifuðu Borgun, KSÍ og Stöð 2 Sport undir nýjan samstarfssamning varðandi bikarkeppni KSÍ. Það verður því keppt um Borgunarbikarinn til ársins 2015. Stöð 2 Sport ætlar sér að sinna keppninni af fullum krafti.

"Við verðum með þætti eftir allar umferðir karlamegin og svo sýnum við úrslitaleikinn hjá konunum," segir Hjörvar Hafliðason, sjónvarpsstjóri Stöðvar 2 Sport, en hann er sérstaklega spenntur fyrir þættinum um 32-liða úrslitin.

"Við verðum með stóran þátt í 32-liða úrslitunum þar sem farið er á hina ótrúlegustu velli og lið sem aldrei koma í sjónvarp detta í sjónvarpið þar. Þessi þáttur um 32-liða úrslitin er oft skemmtilegasti þáttur ársins."

Bikarúrslitaleikirnir voru áður í lok tímabils en hafa síðustu ár verið í lok ágúst og hefur það mælst vel fyrir.

"Borgunarbikarúrslitaleikirnir í fyrra voru með skemmtilegustu leikjum sem við sýndum. Fram-Stjarnan var meiriháttar leikur og svo var sett aðsóknarmet á kvennaleiknum. Þessi ákvörðun hjá KSÍ að færa leikina fram í ágúst virðist hafa verið hárrétt."

Borgun hefur verið lengi í samstarfi við KSÍ og forstjóri Borgunar, Haukur Oddsson, er hæstánægður með samstarfið.

"Það eru fá tækifæri betri á Íslandi til þess að koma nafni fyrirtækisins á framfæri en þau sem tengjast knattspyrnu og bikarnum. Samstarfið hefur gengið mjög vel og það var eiginlega sjálfgefið að við myndum halda þessu áfram," segir Haukur.

"Við höfum nú verið í samstarfi við KSÍ í að vera annan áratug. Það er ekkert sem bendir til annars en að þetta sé langtímasamkomulag. Við gefum ekki upp neinar peningaupphæðir í samningnum en við metum það þannig að sá ávinningur sem Borgun hefur af þessu samstarfi sé það mikill að við sjáum ekki eftir því fé sem fer í að vera með."

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, tilkynnti á fundinum í dag að liðið sem tapar bikarúrslitaleiknum á ekki lengur möguleika á Evrópusæti. Í staðinn verður það næsta lið í deildinni, sem ekki er með tryggt Evrópusæti, sem fær þátttökuréttinn ef sama félagið vinnur bæði deild og bikar.

"Það er ný ákvörðun Knattspyrnusambands Evrópu og gildir fyrir allar deildir í Evrópu. Deildin fær því meira vægi en áður," segir Geir.

Viðtöl við þremenningana má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×