Íslenski boltinn

Spá FBL og Vísis: Þór hafnar í 7. sæti

Sveinn Elías Jónsson er fyrirliði Þórsara.
Sveinn Elías Jónsson er fyrirliði Þórsara. Vísir/Vilhelm
Þrátt fyrir skrautlegt sumar að ýmsu leyti í fyrra hélt Þór sæti sínu í Pepsi-deildinni nokkuð örugglega og leikur því annað árið í röð á meðal þeirra bestu. Akureyri hefur beðið lengi eftir því að eiga aftur stöðugt úrvalsdeildarfélag og ættu Þórsarar hæglega að geta hangið áfram á meðal þeirra bestu.

Þórsarar voru mikið í sviðsljósinu í fyrra þökk sé skrautlegum varnarleik og stundum enn skrautlegri markvörslu en unnið hefur verið í þessum tveimur þáttum í vetur. Strákarnir úr þorpinu mæta með samheldið lið til leiks sem á ekki að þurfa að vera í neinni fallbaráttu.

Hópurinn er kannski ekki sá stærsti hjá Þórsurum en þar deyja menn fyrir klúbbinn eins og segir í einkunnarorðum stuðningsmanna þeirra. Heimavöllurinn er kannski það helsta sem liðið þarf að nýta sér betur í sumar. Þar ætti liðið að fá mun fleiri stig.

Gengi Þórs síðustu sex tímabil:

2008 (B-deild, 8. sæti)

2009 (B-deild, 6. sæti)

2010 (B-deild, 2. sæti)

2011 (11. sæti)

2012 (B-deild, 1. sæti)

2013 (8. sæti)    

Íslandsmeistarar: Aldrei (3. sæti 1985 og 1992)

Bikarmeistarar: Aldrei (úrslit 2011)

Tölur Þórs í Pepsi-deildinni 2013:

Mörk skoruð: 8. sæti (1,41 í leik)

Mörk á si: 10. sæti (2,00 í leik)

Stig heimavelli: 10. sæti (10 af 30,3%)

Stig á útivelli: 7. sæti (14 af 42,4%)

Nýju mennirnir:

Sandor Matus (KA)

Þórður Birgisson (KF)

Hjörtur Geir Heimisson (Magna)

Arnþór Hermannsson (Völsungi)

Mjölnismenn, stuðningsmenn Þórsara, eru með þeim bestu í deildinni.Vísir/Vilhelm


EINKUNNASPJALDIÐ:

Vörnin: 3 stjörnur

Þórsarar áttu í ævintýralegum vandræðum með varnarleikinn á síðasta tímabili en stundum lá við að þyrfti að gera aukaþátt af Pepsi-mörkunum til að koma öllum mistökum þeirra fyrir. Ekki hjálpaði til að markvarslan var í tómu tjóni þar sem Srjdan Rajkovic og Josh Wick skiptu með sér stöðunni og áttu báðir mjög skrautlega leiki.

Unnið hefur verið í báðum þessum þáttum í vetur og líta hlutirnir mun betur út hjá Þórsurum sem fengu aðeins á sig þrjú mörk í sjö leikjum í riðlakeppni Lengjubikarsins.  Atli Jens Albertsson og Hlynur Atli Magnússon verða áfram í miðvarðarstöðunum en þar getur Orri Freyr Hjaltalín, hinn ódrepandi baráttuhundur, einnig hjálpað til.

Það hefur fátt breyst hvað mannskapinn varðar í varnarleiknum. Fyrirliðinn Sveinn Elías Jónsson verður líklega í hægri bakverðinum og Ingi Freyr Hilmarsson vinstra megin. Það sem virðist hafa breyst er hugarfarið en vinnusemin hefur alltaf verið í lagi hjá Þórsurum.

Til að vinna í markvarðarmálunum fékk Þór til sín hinn 38 ára gamla margreynda Sandor Matus frá erkifjendunum í KA. Hann virðist hafa góð áhrif á varnarleikinn en auðvitað verður að setja spurningamerki við hvort Sandor sé kominn yfir síðasta söludag í úrvalsdeildinni.

Sóknin: 2 stjörnur

Sóknarleikurinn hjá Þór mun snúast í kringum Bandaríkjamanninn Chukwudi Chijindu sem félaginu tókst að semja aftur við þrátt fyrir áhuga annarra liða í deildinni. Mjög eðlilega mun sóknarleikurinn snúast um hann þar sem Chuck, eins og hann er kallaður, er einn albesti framherji deildarinnar en hann skoraði tíu mörk í 18 leikjum síðasta sumar.

Verði hann í svipuðu stuði og síðasta sumar og fái hann smá aðstoð í sóknarleiknum frá sóknar- og kantmönnum á borð við Þórð Birgisson, Jóhann Helga Hannesson, Evrópu-Sigurð Marinó Kristjánsson og Ármann Pétur Ævarsson ættu Þórsarar að vera í fínum málum í sóknarleiknum.

Jóhann Helgi Hannesson er leikmaður sem þarf að fara að skora fleiri mörk. Það eru fáir leikmenn sem leggja sig meira fram en Jóhann Helgi en sem framherji er ekki bara nóg að vera duglegur. Hann skoraði aðeins þrjú mörk í 21 leik í fyrra sem er óboðlegt.

Þjálfarinn: 2 stjörnur

Páll Viðar Gíslason er að gera fína hluti í þorpinu. Hann kom liðinu loks upp um deild eftir margra ára fjarveru úr deild þeirra bestu og þrátt fyrir erfitt fyrsta tímabil aftur uppi 2011 þar sem liðið féll kom hann því rakleitt upp aftur og hélt liðið svo sæti sínu í fyrra.

Hann hefur fengið sinn skerf af gagnrýni en það er óumdeilt að hann nær til strákanna, hefur enda þjálfað marga þeirra frá því þeir voru pollar. Það getur reyndar stundum snúist upp í andhverfu sína. En í heildina berjast leikmennirnir stoltir fyrir þjálfarann sinn.

Páll Viðar starfar einnig sem framkvæmdastjóri félagsins og er því málaður Þórslitunum allan daginn. Hann vill liðinu allt hið besta og tekur á sig sökina fyrir nær allt sem leikmenn hans afreka á vellinum – sama hvort hann á það skilið eða ekki.

Breiddin: 2 stjörnur

Eins og flest liðin sem verða líklega í neðri helmingi deildarinnar er breiddin ekkert rosalega mikil en það skiptir minna máli en ella vegna stöðu hinna liðanna. Þar með er þó ekki sagt að Páll Viðar hafi ekki möguleika á varamannabekknum.

Chuck hefur ekki enn spilað leik fyrir liðið á undirbúningstímabilinu og einhver þarf að víkja þegar hann mætir til leiks í Pepsi-deildinni. Þá gætu annaðhvort Jóhann Helgi eða Þórður Birgisson, sem kom frá Fjallabyggð í vetur, farið á bekkinn en það eru sterkir leikmenn til að eiga á bekknum.

Hinn ungi Jónas Björgvin Sigurbergsson mun leika stærri rullu hjá liðinu en á síðasta tímabili en festi hann sig ekki í sessi í byrjunarliðinu er það einnig strákur sem getur komið inn á og gert usla þegar liðið þarf á því að halda.

Liðsstyrkurinn: 1 stjarna

Þórsarar misstu Mark Tubæk eftir síðasta tímabil sem var slæmt fyrir liðið en annars kemur það nánast óbreytt til leiks fyrir utan nokkra rulluspilara sem liðið mun ekki sakna mikið.

Páll Viðar sótti Sandor Matus til KA og treystir þar á gríðarlega mikla reynslu hans til að halda ró í varnarleiknum og fá stopp í markinu sem vantaði svo sárlega á síðasta tímabili. Sandor hefur ekki leyft aldrinum að hafa mikil áhrif á frammistöðu sína en hann virðist eldast eins og gott vín.

Koma Chucks er ótrúlega mikilvæg fyrir Þórsara eins og allir vita en þá náði Páll Viðar einnig í framherjann Þórð Birgisson. Þórður hefur raðað inn mörkum í neðri deildunum á ferli sínum en aldrei tekist að skora af viti í úrvalsdeildinni. Hann fær nú annað tækifæri til að sýna sig og sanna á meðal þeirra bestu.

Hefðin: 2 stjörnur

Það gerði mikið fyrir Þórsara að halda sæti sínu á síðasta tímabili. Síðan KA féll í 1. deildina 2004 átti Akureyri ekki lið í efstu deild fyrr en 2011 þegar Þórsarar komust upp aftur en þeir féllu jafnharðan. Til allrar hamingju fyrir Þórsara var stoppið þá mjög stutt og fær liðið nú kjörið tækifæri til að festa sig á meðal þeirra bestu.

Þór fór í bikarúrslit 2011 og var svona fimm stangar- og sláarskotum frá því að leggja KR að velli. Nýr völlur, öflugir yngri flokkar og úrvalsdeildarbolti hefur gert mikið fyrir félagið á undanförnum árum sem ætlar sér ekki að hverfa á braut úr Pepsi-deildinni í bráð.

Chuck er maðurinn hjá Þór.Vísir/Sævar Geir
Lykilmaðurinn: Chukwudi Chijindu

Frábær framherji sem fór fyrir Þórsliðinu á síðasta tímabili. Hann skoraði fimm mörk í níu leikjum í 1. deildinni 2012 og sýndi það svart á hvítu í fyrra að hann er einn af bestu framherjum úrvalsdeildarinnar þegar hann skoraði tíu mörk í 18 leikjum.

Chuck er sterkur, fljótur, góður með boltann og getur bæði komið sér í góða stöðu í teignum og einnig búið til færin sín sjálfur með mikilli baráttu og auðvitað miklum hæfileikum.

Fáir leikmenn skipta sín lið jafnmiklu máli og Chuck gerir en hann verður einfaldlega að vera í sama stuði og á síðasta tímabili.

Fylgstu með þessum: Jónas Björgvin Sigurbergsson

Strákur fæddur 1994 sem spilaði níu leiki með Þórsliðinu á síðasta tímabili. Hann mun vafalítið fá stærra hlutverk með Þórsurum í sumar og nýtir þá reynsluna sem honum gafst á síðasta tímabili.

Jónas getur bæði leikið á kantinum og inni á miðjunni þar sem hann verður væntanlega í sumar en hann er góður á boltann með fína yfirsýn, góðar sendingar og getur lagt upp færi fyrir félagana.

Spá Vísis og Fréttablaðsins fyrir Pepsi-deild karla sumarið 2014:

1. sæti ???

2. sæti ???

3. sæti ???

4. sæti ???

5. sæti ???

6. sæti ???

7. sæti Þór

8. sæti Fram

9. sæti Keflavík

10. sæti Víkingur

11. sæti Fylkir

12. sæti Fjölnir


Tengdar fréttir

Spá FBL og Vísis: Fram hafnar í 8. sæti

Fram er einfaldlega stærsta spurningamerkið fyrir tímabilið enda kemur liðið gríðarlega mikið breytt til leiks, með nýjan þjálfara og hreinlega nýja stefnu í sínum knattspyrnumálum.

Spá FBL og Vísis: Keflavík hafnar í 9. sæti

Keflvíkingar verða áfram í neðri hluta Pepsi-deildarinnar ef marka má spá íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis en liðið heldur þó sæti sínu í deildinni. Keflavíkurliðið er spurningamerki en það hefur þó verið að leika ágætlega á undirbúningstímabilinu.

Spá FBL og Vísis: Fjölnir hafnar í 12. sæti

Fréttablaðið og Vísir telur niður í Pepsi-deild karla í knattspyrnu sem hefst sunnudaginn 4. maí. Nýliðum Fjölnis er spáð neðsta sæti deildarinnar og þar með falli úr henni í haust.

Spá FBL og Vísis: Fylkir hafnar í 11. sæti

Ef marka má spá Fréttablaðsins og Vísis fyrir Pepsi-deildina í knattspyrnu 2014 þá lýkur fimmtán ára samfelldri veru Fylkis í úrvalsdeildinni í haust.

Spá FBL og Vísis: Víkingur hafnar í 10. sæti

Ef marka má spá íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis halda nýliðar Víkings sæti sínu í Pepsi-deild karla með naumindum en liðið er komið aftur í deild þeirra bestu eftir tveggja ára fjarveru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×