Íslenski boltinn

Spá FBL og Vísis: Keflavík hafnar í 9. sæti

Kristján Guðmundsson tók við Keflavík aftur síðasta sumar.
Kristján Guðmundsson tók við Keflavík aftur síðasta sumar. Vísir/Daníel
Keflvíkingar koma með svipað lið til leiks í sumar og í fyrra. Það hefur reyndar misst sinn besta mann, Arnór Ingva Traustason, og treystir áfram meira og minna á uppalda stráka, jafnt unga sem aldna. Í Keflavík er spilað með hjartanu.

Keflavík var í harðri fallbaráttu til að byrja með í fyrrasumar en fékk þá Kristján Guðmundsson aftur til starfa. Hann sneri gengi liðsins við ásamt aðstoðarþjálfaranum Mána Péturssyni sem virtist ná vel til leikmanna liðsins og barði í þá trú á getu þeirra.

Suðurnesjamenn eru stórt spurningamerki fyrir tímabilið þrátt fyrir að vera með lítið breytt lið.

Ungu strákarnir þurfa að fara að taka skrefið sem beðið hefur verið eftir en í hópi Keflvíkinga eru nokkrir virkilega efnilegir leikmenn.

Gengi Keflavíkur síðustu sex tímabil:

2008 (2. sæti)

2009 (6. sæti)

2010 (6. sæti)

2011 (8. sæti)

2012 (9. sæti)

2013 (9. sæti)

Íslandsmeistarar: 4 sinnum (síðast 1973)

Bikarmeistarar: 4 sinnum (síðast 2006)

Tölur Keflavíkur í Pepsi-deildinni 2013:

Mörk skoruð: 6. sæti (1,5 í leik)

Mörk á sig: 11. sæti (2,14 í leik)

Stig heimavelli: 7. sæti (13 af 39,4%)

Stig á útivelli: 4. sæti (11 af 33,3%)

Nýju mennirnir:

Jonas Sandqvist (Svíþjóð)

Paul McShane (Aftureldingu)

Sindri S. Magnússon (Breiðabliki)

Sigurbergur Elísson rennir sér eftir grasinu í fyrra.Vísir/Vilhelm


EINKUNNASPJALDIÐ:

Vörnin: 1 stjarna

Keflvíkingar fengu á sig næstflest mörk í deildinni í fyrra, fleiri en Þórsliðið sem tekið var í gegn fyrir varnarleik sinn nánast í hverri umferð. Aðeins hefur verið skrúfað fyrir lekann en liðið fékk þó á sig tæp tvö mörk í leik að meðaltali á undirbúningstímabilinu. Fyrirliðinn Haraldur Freyr Guðmundsson verður að eiga gott sumar og taka ábyrgð í varnarleiknum.

Halldór Kristinn Halldórsson verður væntanlega við hlið hans í miðverðinum. Halldór er leikmaður sem getur betur en hann hefur oft sýnt. Breiddin í varnarlínunni er ekki mikil þannig að Suðurnesjamenn verða að vonast til að varnarmennirnir haldist heilir.

Það munar líka mikið um það að Ómar Jóhannsson stendur ekki vaktina í markinu en mikilvægi hans sást bersýnilega eftir að hann kom aftur eftir meiðsli í fyrra.

Sóknin: 2 stjörnur

Hörður Sveinsson verður áfram maðurinn sem á að skora mörkin en það kviknaði heldur betur á honum seinni hluta móts í fyrra. Hann endaði með níu mörk í deildinni en hann hafði ekki skorað svo mörg deildarmörk síðan 2005. Það veit á gott fyrir Keflavík.

Hann var aðeins frá vegna meiðsla í vetur og missti af stærstum hluta Lengjubikarsins en var þó mættur aftur í 8 liða úrslitin gegn Þór þar sem hann skoraði glæsilegt mark. En Hörður fær hjálp við markaskorunina.

Ungu strákarnir Daníel Stefán Ljubicic og Elías Már Ómarsson hafa verið að hjálpa til en þeir skoruðu samtals sjö af fimmtán mörkum liðsins í Lengjubikarnum. Þá getur Jóhann B. Guðmundsson alltaf lagt sín lóð á vogarskálarnar þegar kemur að markaskorun.

Þjálfarinn: 4 stjörnur

Kristján Guðmundsson hefur fyrir löngu sannað að hann er einn af snjöllustu þjálfurum landsins. Undir hans stjórn vann Keflavík bikarinn 2008 og var ævintýralega nálægt Íslandsmeistaratitlinum sama ár.

Honum líður best í Keflavík og þar nýtur hann mikillar virðingar og stuðnings eins og sást í fyrra þegar hann reif upp gengi liðsins. Hann er ekki lengur með Mána Pétursson með sér sem aðstoðarþjálfara sem sprengdi dæmið vel upp í Keflavík í fyrra. Það kemur kannski betur í ljós í ár hversu stór hans þáttur var síðasta sumar.

Breiddin: 2 stjörnur

Keflvíkingar stilla upp svipuðu byrjunarliði og í fyrra en breiddin er ekki mikil frekar en undanfarin ár. Hópurinn hefur ekki verið styrktur mikið en Kristján getur þó leyft sér, ef miðað er við leikinn gegn Þór í 8 liða úrslitum Lengjubikarsins, að hafa leikmenn eins og Bojan Stefán og Jóhann B. Guðmundsson á bekknum.

Það eru ekki amalegir kostir til að henda inn á í góðri eða slæmri stöðu. Kristján hlýtur þó að vilja bæta við hópinn áður en mótið byrjar.

Liðsstyrkurinn: 1 stjarna

Það hefur verið úr litlu að spila í Keflavík undanfarin ár sem hefur vissulega gefið heimamönnum tækifæri á að spila og þroskast.

Aðeins þrír leikmenn eru komnir til liðsins: Sindri Snær Magnússon, efnilegur Bliki, Paul McShane sem var kominn niður í 2. deildina með Aftureldingu og sænski markvörðurinn Jonas Sandqvist sem hefur ekki heillað alla á undirbúningstímabilinu en þó eru Keflvíkingar mjög ánægðir með hann og það er það sem skiptir máli.

Þetta er ekki mikil viðbót við annars þunnskipaðan hóp þannig Kristján verður að halda áfram að líta inn á við.

Hefðin: 3 stjörnur

Keflavík hefur verið samfleytt í efstu deild frá 2005 og vann bikarmeistaratitilinn 2004 og 2006. Liðið var eitt af þeim bestu á landinu frá 2006-2010 en vegna fjarhagsástæðna sérstaklega hefur liðið átt erfitt uppdráttar undanfarin þrjú ár.

Knattspyrnuhefðin er engu að síður sterk í Keflavík og þar þekkja menn lítið annað en úrvalsdeildarfótbolta. Það verður þó þrautin þyngri að halda stöðu sinni á meðal þeirra bestu að þessu sinni.

Jóhann B. Guðmundsson.Vísir/Guðmundur
Lykilmaðurinn: Jóhann B. Guðmundsson

Jóhann verður ekkert yngri með hverju árinu sem líður en hann verður heldur ekkert minna mikilvægur fyrir þetta Keflavíkurlið. Fyrst Arnór Ingvi Traustason er farinn í atvinnumennsku leggst aftur enn meiri ábyrgð á herðar eldri og reyndari manna liðsins.

Það vita allir hvað Jóhann getur. Hann er afskaplega góður með boltann, gefur góðar sendingar í hættuleg svæði og er stórhættulegur skotmaður. Keflavíkurhjartað og einbeittur sigurvilji er þó það sem gerir hann að algjörum lykilmanni hjá Keflavík.

Fylgstu með þessum: Elías Már Ómarsson

Elías Már er fæddur 1995 og kom sterkur inn í Keflavíkurliðið í fyrra þar sem hann spilaði 16 deildarleiki og skoraði 2 mörk.

Hann hefur fylgt því eftir með góðri frammistöðu á undirbúningstímabilinu en hann skoraði þrjú mörk í sex leikjum í riðlakeppni Lengjubikarsins og bætti svo einu snotru marki við í 8 liða úrslitunum gegn Þór.

Virkilega skemmtilegur fótboltamaður sem gæti orðið ein af ungstjörnum sumarsins hafi hann áhuga á því sjálfur.

Spá Vísis og Fréttablaðsins fyrir Pepsi-deild karla sumarið 2014:

1. sæti ???

2. sæti ???

3. sæti ???

4. sæti ???

5. sæti ???

6. sæti ???

7. sæti ???

8. sæti ???

9. sæti Keflavík

10. sæti Víkingur

11. sæti Fylkir

12. sæti Fjölnir


Tengdar fréttir

Spá FBL og Vísis: Fjölnir hafnar í 12. sæti

Fréttablaðið og Vísir telur niður í Pepsi-deild karla í knattspyrnu sem hefst sunnudaginn 4. maí. Nýliðum Fjölnis er spáð neðsta sæti deildarinnar og þar með falli úr henni í haust.

Spá FBL og Vísis: Fylkir hafnar í 11. sæti

Ef marka má spá Fréttablaðsins og Vísis fyrir Pepsi-deildina í knattspyrnu 2014 þá lýkur fimmtán ára samfelldri veru Fylkis í úrvalsdeildinni í haust.

Spá FBL og Vísis: Víkingur hafnar í 10. sæti

Ef marka má spá íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis halda nýliðar Víkings sæti sínu í Pepsi-deild karla með naumindum en liðið er komið aftur í deild þeirra bestu eftir tveggja ára fjarveru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×