Íslenski boltinn

Spá FBL og Vísis: Breiðablik hafnar í 3. sæti

Vísir/Vilhelm
Breiðablik náði frábærum árangri í Evrópudeildinni á síðasta tímabili en því miður fyrir liðið náði það ekki Evrópusæti í deildinni. Þrátt fyrir nokkurn mannamissi er liðið mjög vel mannað og getur hæglega barist um titilinn.

Stærsta breytingin á liðinu kemur til skjalanna þegar sex umferðir verða búnar af mótinu því þá yfirgefur arkitektinn að uppgangi Blika undanfarin ár, Ólafur Kristjánsson, félagið og heldur í atvinnumennsku sem þjálfari Nordsjælland í Danmörku.

Guðmundur Benediktsson mun taka við Breiðabliki en hann hefur verið aðstoðarmaður Ólafs undanfarin ár og þekkir leikmannahópinn inn og út. Það verður fróðlegt að sjá hversu mikil áhrif þessi breyting hefur.

Í Blikaliðinu eru virkilega öflugir leikmenn í bland við unga og uppalda spilara sem fá alltaf sín tækifæri. Akademían hjá Blikum er fyrir löngu orðin öfundarefni flestra annarra liða á landinu.

Gengi Breiðabliks síðustu sex tímabil:

2008 (8. sæti)

2009 (5. sæti, Bikarmeistari)

2010 (Íslandsmeistari)

2011 (6. sæti)

2012 (2. sæti)

2013 (4. sæti)      

Íslandsmeistarar: 1 sinni (2010)

Bikarmeistarar: 1 sinni (2009)

Tölur Stjörnunnar í Pepsi-deildinni 2013:

Mörk skoruð: 4. sæti (1,68 í leik)

Mörk á sig: 3. sæti (1,23 í leik)

Stig á heimavelli: 3. sæti (24 af 33, 73%)

Stig á útivelli: 5. sæti (15 af 33, 46%)

Nýju mennirnir:

Arnór Sveinn Aðalsteinssson (Hönefoss í Noregi)

Damir Muminovic (Víkingi Ó.)

Jordan Halsman (Fram)

Stefán Gíslason (Leuven í Belgíu)

Vísir/Daníel
EINKUNNASPJALDIÐ

Vörnin: 4 stjörnur

Breiðablik mætir til leiks með algjörlega nýja varnarlínu. Þórður Steinar, Renee Troost, Sverrir Ingi og Kristinn Jónsson eru allir farnir og þurfti Ólafur að smíða nýja vörn frá grunni.

Liðið fékk heimamanninn Elfar Frey Helgason á miðju sumri í fyrra og svo hafa bæst í hópinn annar uppalinn Bliki, Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Skotinn Jordan Halsman sem kom frá Fram og fyrrverandi landsliðsmaðurinn Stefán Gíslason auk Damirs Muminovic sem sló í gegn með Ólsurum í fyrra.

Þeir virðast hafa smollið vel saman því varnarleikur Blika hefur í heildina litið vel út í vetur og hjálpaði mikið til að liðið fór á sterkt æfingamót í Portúgal í vetur eins og FH-ingar.

Stefán Gíslason mun gera mikið til að færa ró yfir þessa nýju varnarlínu og svo má ekki gleyma markverðinum Gunnleifi Gunnleifssyni. Ef velja ætti einn markmann til að koma skipulagi og hafa bönd á nýrri vörn þá yrði það líklega Gunnleifur.



Sóknin: 4 stjörnur

Blika vantaði aðeins fleiri mörk á síðasta tímabili til að berjast ofar í töflunni og þó danski framherjinn Nichlas Rohde sé farinn þá eru teikn á lofti um að Kópavogsliðið skori mörk í sumar.

Liðið er með einn mest spennandi framherjann í deildinni, Árna Vilhjálmsson, sem margir reikna með að springi út. Hann skoraði níu mörk í fyrra og vonandi fyrir Blika tekur hann næsta skref.

Í kringum hann eru öflugir menn á borð við Elfar Árna Aðalsteinsson og Ellert Hreinsson sem skila alltaf sínum mörkum og svo fá þeir hjálp af miðjunni frá spilara eins og Guðjóni Pétri Lýðssyni sem sér um föst leikatriði.

Breiðablik spilar einn besta boltann á landinu og fær sín færi. Nú þurfa framherjar liðsins bara vera ákveðnari fyrir framan markið.



Þjálfarinn: 5 stjörnur

Ólafur Helgi Kristjánsson hefur breytt fótboltalandslaginu hjá Breiðabliki síðan hann tók við liðinu á miðju sumri 2006 og hélt því í deildinni. Hann er búinn að gera Blikanna að afli í úrvalsdeildinni og var fyrstur til að vinna bæði bikarinn og Íslandsmeistaratitilinn með liðið.

Ólafur er fyrir löngu búinn að sanna að hann er einn albesti þjálfari landsins og það gerði hann svo um munaði í Evrópudeildinni síðasta sumar.

Það er ekki af ástæðulausu að danska úrvalsdeildarliðið FC Nordsjælland, lið sem spilaði í Meistaradeildinni í fyrra, réð hann til starfa en Ólafur stýrir Blikum aðeins í sex leikjum í sumar áður en hann yfirgefur landið.

Guðmundur Benediktsson er vitaskuld enginn Ólafur Kristjánsson en fyrsta tilraun hans við aðalliðsþjálfun á Selfossi fór ekki eins og best verður á kosið.

Hann er aftur á móti eldri og reyndari núna og hefur verið að læra af Ólafi undanfarin ár. Hann þekkir allt hjá Blikum og hefur traust leikmanna þannig þjálfarabreytingin ætti ekki að verða of dramatísk fyrir liðið.



Breiddin: 4 stjörnur

Það er alltaf til nóg af góðum fótboltamönnum í Kópavogi en Blikarnir hafa þó misst meira en þeir hafa fengið að þessu sinni. Heilir tólf leikmenn eru farnir, flestir þó rulluspilarar, og aðeins fjórir komið á móti.

Strákar á borð við Elvar Pál Sigurðsson, Pál Olgeir Þorsteinsson, Tómas Óla Garðarsson og Erni Bjarnason munu fá sín tækifæri og svo verða einhverjir sterkir spilarar skildir eftir á bekknum þegar Ólafur verður búinn að finna sitt besta byrjunarlið.



Liðsstyrkurinn: 4 stjörnur

Þeir fjórir sem komnir eru spila allir í vörninni sem er eðlilegt miðað við mannamissinn sem Breiðablik varð fyrir í varnarlínunni.

Stefán Gíslason var stóri fengurinn en það mun vafalítið gera mikið fyrir liðið að hafa jafnreyndan spilara og hann í öftustu línu til að stýra hlutunum.

Damir Muminovic átti góðu gengi að fagna með Ólsurum í fyrra og verðskuldar sitt tækifæri í betra liði og þá er Skotinn Jordan Halsman kominn frá Fram. Hans sumar var svona upp og ofan í fyrra.

Þá er Arnór Sveinn Aðalsteinsson kominn heim úr atvinnumennsku en það verður ekki leiðinlegt að sjá þann eldfljóta og frábæra bakvörð þeytast upp og niður kantinn í sumar. Virkilega öflugur leikmaður þar á ferð.



Hefðin: 4 stjörnur

Breiðablik hafði í fjölda ára daðrað við efstu deild en átt í erfiðleikum með að halda sér uppi eins og svo mörg önnur lið sem kíkja reglulega upp í úrvalsdeildina en falla strax aftur.

Blikarnir hættu þessu hoppi og skoppi á milli deildar 2006 þegar liðið hélt sér uppi og hefur ekki litið um öxl síðan. Það varð bikarmeistari í fyrsta skipti 2009 og Íslandsmeistari ári síðar.

Það hefur sturtað leikmönnum í atvinnumennsku á undanförnum árum og mun halda áfram að gera það. Þetta er einfaldlega orðið eitt besta lið landsins og það stærsta ef litið er til yngri flokkanna.



Damir Muminovic.Vísir/Daníel
Lykilmaðurinn: Finnur Orri Margeirsson

Fyrirliðinn átti frábært sumar í fyrra en hann hefur verið ein af þöglu hetjum deildarinnar um árabil. Hann er ekki nema 23 ára gamall en lék sinn 150. deildarleik síðasta sumar.

Finnur er óþreytandi miðjumaður sem spilar lykilhlutverk hjá Breiðabliki, sama hvaða uppstillingu liðið vinnur með. Í nýja 3-5-2 kerfinu sem Ólafur byrjaði að nota í fyrra átti Finnur marga af sínum bestu leikjum.



Fylgstu með þessum: Damir Muminovic

Þessi 24 ára gamli varnarmaður hefur gengið í gegnum ýmislegt á sínum fótboltaferli en hann sýndi loks hvers hann er megnugur með Ólsurum í fyrra.

Nú er hann kominn í mun betra lið og fær tækifæri til að láta ljós sitt skín enn frekar.

Þetta er stór og sterkur strákur með mikinn leikskilning, góður á boltann og tapar sjaldan návígi.



Spá Vísis og Fréttablaðsins fyrir Pepsi-deild karla sumarið 2014:

1. sæti ???

2. sæti ???

3. sæti Breiðablik

4. sæti Stjarnan

5. sæti Valur

6. sæti ÍBV

7. sæti Þór

8. sæti Fram

9. sæti Keflavík

10. sæti Víkingur

11. sæti Fylkir

12. sæti Fjölnir


Tengdar fréttir

Spá FBL og Vísis: Fram hafnar í 8. sæti

Fram er einfaldlega stærsta spurningamerkið fyrir tímabilið enda kemur liðið gríðarlega mikið breytt til leiks, með nýjan þjálfara og hreinlega nýja stefnu í sínum knattspyrnumálum.

Spá FBL og Vísis: ÍBV hafnar í 6. sæti

Eyjamenn mæta til leiks með nýjan þjálfara í Pepsi-deild karla í fótbolta og hafna í sjötta sæti ef marka má spá íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis. Pepsi-deildinni hefst á sunnudaginn.

Spá FBL og Vísis: Keflavík hafnar í 9. sæti

Keflvíkingar verða áfram í neðri hluta Pepsi-deildarinnar ef marka má spá íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis en liðið heldur þó sæti sínu í deildinni. Keflavíkurliðið er spurningamerki en það hefur þó verið að leika ágætlega á undirbúningstímabilinu.

Spá FBL og Vísis: Stjarnan hafnar í 4. sæti

Stjarnan endaði í þriðja sæti Pepsi-deildarinnar í fyrra og tryggði sér þátttökurétt í Evrópukeppni í fyrsta skipti í sögu félagsins. Nýr þjálfari er mættur til starfa en hann nær ekki alveg sama árangri ef spá íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis rætist.

Spá FBL og Vísis: Fjölnir hafnar í 12. sæti

Fréttablaðið og Vísir telur niður í Pepsi-deild karla í knattspyrnu sem hefst sunnudaginn 4. maí. Nýliðum Fjölnis er spáð neðsta sæti deildarinnar og þar með falli úr henni í haust.

Spá FBL og Vísis: Fylkir hafnar í 11. sæti

Ef marka má spá Fréttablaðsins og Vísis fyrir Pepsi-deildina í knattspyrnu 2014 þá lýkur fimmtán ára samfelldri veru Fylkis í úrvalsdeildinni í haust.

Spá FBL og Vísis: Þór hafnar í 7. sæti

Þórsarar héldu sæti sínu í Pepsi-deildinni í fyrra og gera það nokkuð auðveldlega aftur í sumar ef spá íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis verður að veruleika.

Spá FBL og Vísis: Víkingur hafnar í 10. sæti

Ef marka má spá íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis halda nýliðar Víkings sæti sínu í Pepsi-deild karla með naumindum en liðið er komið aftur í deild þeirra bestu eftir tveggja ára fjarveru.

Spá FBL og Vísis: Valur hafnar í 5. sæti

Valsmenn sigldu lygnan sjó í Pepsi-deildinni á síðasta ári og samkvæmt spá íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis verður niðurstaðan sú sama hjá Valsmönnum í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×