Íslenski boltinn

Heimir: Tveggja rútu varnarleikur hjá Blikum

Henry Birgir Gunnarsson í Kaplakrika skrifar
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH. Vísir/Daníel
FH-ingar fengu bara eitt stig í fyrsta leik sínum í Pepsi-deild karla í sumar þrátt fyrir að hafa vaðið í færum í 1-1 jafntefli á móti Breiðabliki í síðasta leik 1. umferðarinnar í kvöld.

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, var merkilega léttur eftir leik þó svo hans menn hefðu misst af tveimur stigum.

„Ég er kannski ekki í kastinu að hafa ekki fengið öll stigin en auðvitað eru það vonbrigði að fá ekki þrjú stig á heimavelli," sagði Heimir.

„Það voru forsendur fyrir því að fá öll stigin. Mér fannst við miklu betri í þessum leik. Lentum i basli fyrsta korterið og fengum á okkur mark. Unnum okkur síðan inn í leikinn og vorum sterkari aðilinn það sem eftir lifði leiks."

Menn sem fylgdust með leiknum í sjónvarpinu sögðu að mark Blika hefði verið rangstöðumark.

„Ég hef ekki séð þetta atvik og ætla ekki að tjá mig um það fyrr en ég hef séð það. Í seinni og fyrri hálfleik fengum við fín færi sem við náum ekki að nýta.

„Blikarnir spiluðu sterkan varnarleik. Lágu til baka og sérstaklega eftir því sem leið á leikinn. Þetta var tveggja rútu varnarleikur hjá þeim."

FH gekk illa að skapa sér færi í seinni hálfleik en Heimir brást ekki við því fyrr en seint í hálfleiknum.

„Mér fannst vera góð holning á liðinu. Það hefði mátt vanda fyrirgjafirnar aðeins meira. Það var pínu klaufagangur og smá ónákvæmni. Við getum samt verið sáttir við spilamennskuna í heild sinni en ekki við að fá aðeins eitt stig," sagði Heimir að lokum.

Það er hægt að finna umfjöllun um leikinn og viðtöl eftir hann með því að smella hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×