Íslenski boltinn

Manstu eftir þessari ótrúlegu endurkomu FH-inga? | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fyrstu umferð Pepsi-deildar karla lýkur í kvöld með leik FH og Breiðabliks í Kaplakrika en leikurinn hefst klukkan 19.15 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Leikir liðanna hafa oft verið mjög skemmtilegir í gegnum árin en einn sá allra besti fór fram á Kópavogsvelli fyrir fimm árum þegar FH vann Breiðablik, 3-2, í mögnuðum fótboltaleik.

Bæði lið voru stútfull af verðandi atvinnu- og landsliðsmönnum. Tíu af þeim 22 leikmönnum sem byrjuðu leikinn áttu eftir að fara í atvinnumennsku og einn þeirra, Tryggvi Guðmundsson, var fyrir nokkrum árum kominn heim eftir farsælan feril í atvinnumennsku.

Breiðablik komst í 2-0 með mörkum Guðmundar Kristjánssonar (nú í Start) og Alfreðs Finnbogasonar, núverandi leikmanns Heerenveen og markakóngs hollensku úrvalsdeildarinnar.

Alfreð gat gert út um leikinn á 72. mínútu þegar hann slapp einn í gegn en Daði Lárusson varði frá honum við litla hrifningu Ólafs Kristjánssonar, þjálfara Breiðabliks.

Þetta klúður reyndist dýrt því skömmu síðar minnkaði FH muninn í 2-1 með marki Matthíasar Vilhjálmssonar eftir fyrirgjöf Hjartar Loga Valgarðssonar. Báðir leika sem atvinnumenn í Noregi í dag. Matthías með Start og Hjörtur með Sogndal.

Fjórum mínútum síðar varð Guðmann Þórisson, núverandi leikmaður Mjällby í Svíþjóð, fyrir því óláni að setja boltann í eigið net og jafna metin en Guðmann lék einmitt með FH síðasta sumar og stóð sig frábærlega.

Dramatíkinni var ekki lokið því á fjórðu mínútu í uppbótartíma skoraði Norðmaðurinn Alexander Söderlund sigurmarkið eftir aðra fyrirgjöf Hjartar Loga. Söderlund afgreiddi boltann með fallegu skotin í slána og inn en hann gerði ekki mikið meira þetta sumarið.

Söderlund átti eftir að gera það gott með Haugasundi og komast í norska landsliðið en hann er nú framherji Rosenborgar, stærsta félags Noregs.

Í spilaranum hér að ofan má sjá það helsta úr þessum skemmtilega leik en það er Arnar Björsson sem lýsir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×