Íslenski boltinn

Blikar ekki unnið í Krikanum í efstu deild í 19 ár

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ingimundur Níels Óskarsson og Andri Rafn Yeoman í baráttunni í Lengjubikarúrslitaleiknum í Garðabæ á dögunum.
Ingimundur Níels Óskarsson og Andri Rafn Yeoman í baráttunni í Lengjubikarúrslitaleiknum í Garðabæ á dögunum. Vísir/Daníel
Síðasti leikur fyrstu umferðarinnar í Pepsi-deild karla í knattspyrnu fer fram í kvöld. Um er að ræða stórleik FH og Breiðabliks en leikir þessara liða hafa oft verið mikil skemmtun.

Leikurinn átti upphaflega að fara fram á Kópavogsvelli en heimaleikjum liðanna var víxlað vegna þess að Kaplakrikavöllur er í mjög góðu ástandi á meðan Kópavogsvöllur á enn nokkuð í land eins og margir aðrir vellir á höfuðborgarsvæðinu.

Breiðabliki hefur ekki gengið vel með FH síðan liðið kom aftur upp í deild þeirra bestu sumarið 2006 þannig FH-ingar voru kannski ekki óskamótherjinn í fyrstu umferð. Hvað þá að þurfa færa leikinn í Krikann þar sem liðið hefur ekki unnið í efstu deild í 19 ár.

Liðin hafa mæst 16 sinnum í deildinni á síðustu átta árum en FH hefur unnið níu leiki liðanna, Breiðablik þrjá og fjórum sinnum hafa þau skilið jöfn. Í Kaplakrika hefur FH unnið fimm leiki af síðustu átta síðan Blikar urðu aftur úrvalsdeildarliðið og þrisvar sinnum hafa liðin skilið jöfn.

Breiðablik vann síðast deildarleik í Kaplakrika þegar liðin mættust í næstefstu deild árið 1998. Atli Kristjánsson og Ívar Sigurjónsson skoruðu þá mörk Breiðabliks í 2-1 sigri en Guðmundur Sævarsson skoraði mark FH.

Breiðablik vann FH síðast í Kaplakrika í efstu deild fyrir 19 árum eða sumarið 1995. Ratislav Lazorik fór á kostum fyrir Breiðablik og skoraði þrennu í 4-2 sigri Blikanna 25. júní 1995. Anthony Karl Gregory skoraði fjórða mark Breiðabliks og sjálfur Hörður Magnússon setti bæði fyrir FH.

Hörður gegnir nú öðru hlutverki í íslenskri knattspyrnu en hann og félagar hans í Pepsi-mörkunum gera upp fyrstu umferð Pepsi-deildarinnar klukkan 22.00 í kvöld á Stöð 2 Sport.

Leikur FH og Breiðabliks er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en útsending hefst klukkan 19.00 í kvöld.

Leikir FH og Breiðabliks í úrvalsdeild síðan Blikar komu aftur upp:

2006:

Breiðablik - FH 1-1

FH - Breiðablik 1-1

2007:

FH - Breiðablik 2-1

Breiðablik - FH 4-3

2008:

Breiðablik - FH 4-1

FH - Breiðablik 3-0

2009:

Breiðablik - FH 2-3

FH - Breiðablik 2-1

2010:

Breiðablik - FH 2-0

FH - Breiðablik 1-1

2011:

FH - Breiðablik 4-1

Breiðablik - FH 0-1

2012:

FH - Breiðablik 3-0

Breiðablik - FH 0-1

2013:

Breiðablik - FH 0-1

FH - Breiðablik 0-0

16 leikir síðan 2006:

FH: 9 sigrar

Breiðablik: 3 sigrar

Jafntefli: 4

8 leikir í Krikanum:

FH: 5 sigrar

Breiðablik: 0 sigrar

Jafntefli: 3


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×