Íslenski boltinn

Spá FBL og Vísis: KR verður Íslandsmeistari

Vísir/Daníel
KR stendur uppi sem Íslandsmeistari í 27. skiptið í haust samkvæmt spá Fréttablaðsins og Vísis. Liðið kemur gríðarlega vel mannað til leiks eins og undanfarin ár og með valinn mann í hverju rúmi.

Íslandsmeistararnir misstu öfluga menn eftir síðasta tímabil en hafa gert sitt til að fylla í skörðin. Tveir sterkir póstar eru farnir af miðjunni og þá er Stefán Logi Magnússon kominn aftur í markið.

KR og FH gætu hæglega stungið af frekar snemma í mótinu og má reikna með tveggja turna tali í allt sumar á toppnum. Þetta eru einfaldlega liðin sem eru langbest mönnuð og standa þau framar öðrum eins og staðan er á Íslandi í dag.



Gengi KR síðustu sex tímabil:

2008 (4. sæti, Bikarmeistari)

2009 (2. sæti)

2010 (4. sæti)

2011 (Íslandsmeistarar, Bikarmeistarar)

2012 (4. sæti Bikarmeistarar)

2013 (Íslandsmeistarar)    

Íslandsmeistarar: 26 sinnum (síðast 2013)

Bikarmeistarar: 13 sinnum (síðast 2012)

Tölur KR í Pepsi-deildinni 2013:

Mörk skoruð: 1. sæti (2,27 í leik)

Mörk á sig: 3. sæti (1,23 í leik)

Stig á heimavelli: 1. sæti (31 af 33, 94%)

Stig á útivelli: 2. sæti (21 af 33, 64%)

Nýju mennirnir:

Almarr Ormarsson (Fram)

Farid Zato(Víkingur Ó.)

Gonzalo Balbi (KV)

Ivar Furu (Molde, lán)

Sindri Snær Jensson (Valur)

Stefán Logi Magnúss.  (Lilleström)

Vísir/Daníel
EINKUNNASPJALDIÐ

Vörnin: 4 stjörnur

KR-ingar koma til leiks með nánast sömu varnarlínu. Haukur Heiðar Hauksson og Guðmundur Reynir Gunnarsson standa vaktina í bakvarðarstöðunum og Grétar Sigfinnur er áfram aðalmiðvörður liðsins.

Hann hefur þó fengið nýjan mann með sér því Jonas Grönner fór aftur til Brann og þeir Bjarni Guðjónsson og Brynjar Björn Gunnarsson eru báðir búnir að leggja skóna á hilluna.

KR leitaði aftur til Noregs og fékk til sín strák að nafni Ivan Furu sem hefur litið vel út í vetur. Síðan eru möguleikar fyrir Rúnar eins og Aron Bjarki Jósepsson, sem hefur einnig raðað inn mörkum í vetur, og Gunnar Þór Gunnarsson.



Sóknin: 5 stjörnur

KR skoraði mest allra liða á síðasta tímabili og það þyrfti ekki að koma neinum á óvart ef það yrði uppi á teningnum aftur.

Gary Martin komst í gang á seinni hluta móts í fyrra og endaði með því að skora 13 mörk en margir bíða eftir að hann springi endanlega út og verði meira en bara vinnusamur framherji. Hann hefur alla burði til að verða háklassa markaskorari.

Möguleikarnir í sóknarlínunni eru margir. Óskar Örn Hauksson leggur upp mörk eins og að drekka vatn. Emil Atlason verður bara betri og er mjög sterkur í loftinu og svo er Kjartan Henry Finnbogason að komast í stand eftir meiðsli.



Þjálfarinn: 5 stjörnur

Rúnar Kristinsson er 44 ára gamall og á sínu fimmta ári með liðið.  Hann varð í fyrra fyrsti KR-þjálfarinn í hálfa öld til að skila stórum titli til KR þrjú tímabil í röð.

Rúnar er búinn að rífa félagið sitt aftur upp í hæstu hæðir en hann hefur skilað titlum öll þau ár sem hann hefur verið hjá liðinu.

Hann hefur einnig verið að gera góða hluti með liðið í Evrópukeppnum og bíða menn nú bara eftir því að hann fái tækifæri í atvinnumennsku. Einn albesti þjálfari landsins.



Breiddin: 5 stjörnur

Eins og kom fram hér fyrr er úr nægum mönnum að velja í KR-liðinu. Þótt Bjarni Guðjónsson og Brynjar Björn séu farnir þá eru þeir Farid Zato og Gonzalo Balbi mættir til að hjálpa á miðjunni en þar berjast líka Baldur Sigurðsson, Atli Sigurjónsson og Jónas Guðni Sævarsson um þrjár stöður.

Vörnin og sóknin hefur verið rædd en spurningin er kannski með markvarðarstöðuna. KR missti bæði Hannes Þór Halldórsson og Rúnar Alex Rúnarsson en fékk Stefán Loga Magnússon og Sindra Snæ Jensson.

Stefán hefur glímt við meiðsli undanfarin ár og ef hann getur ekki spilað alla 22 leikina í deildinni eru KR-ingar aðeins veikari fyrir en á síðasta tímabili.



Liðsstyrkurinn: 4 stjörnur

Farid Zato sýndi í fyrra hversu öflugur hann er á miðsvæðinu en hann þarf nú að venjast því að spila meiri sóknarbolta og verður fróðlegt að sjá hvernig hann kemur út hjá Íslandsmeisturunum.

Almarr Ormarsson er einnig kominn frá Fram, sem styrkir hópinn svakalega. Almarr getur spilað fyrir aftan fremsta mann eða úti á kantinum og er alltaf drjúgur við markaskorun.

Gonzalo Balbi er meira spurningarmerki, en KR vildi fá hann til sín síðasta sumar og hafa menn í Vesturbænum mikla trú á þessum leikmanni.



Hefðin: 5 stjörnur

Eins og segir í laginu þá hefur KR unnið titilinn oftast, bikarinn oftast - oftar en allir aðrir. Þannig er það bara. KR þekkir ekkert annað en að vinna.

Fótboltahefðin gerist ekki mikið ríkari en hjá KR enda liðið stofnað 1899 og hefur alið upp marga af bestu knattspyrnumönnum þjóðarinnar.

Stundum verður þessi hefð og pressan í Vesturbænum leikmönnum um megn en Rúnari Kristinssyni hefur alveg tekist að leiða það hjá sínum hópi.



Vísir/Daníel
Lykilmaðurinn: Baldur Sigurðsson

Þar sem breytingar hafa orðið á miðjunni mæðir meira á smalanum úr Mývatnssveitinni en áður. Hann hefur nú enga reynslubolta eins og Bjarna og Brynjar til að bakka sig upp heldur verður að hann algjörlega að taka völdin á miðsvæðinu.

Hann fer líka létt með það enda kannski besti miðjumaður deildarinnar og að margra mati besti leikmaður síðasta tímabils.

Baldur er gífurlega öflugur miðjumaður sem hleypur úr teig í teig, er fastur fyrir og skorar alltaf nóg af mörkum. Og ekki lengur bara í bikarnum.



Fylgstu með þessum: Gonzalo Balbi

Flestir KR-ingarnir eru þekktar stærðir en það verður gaman að fylgjast með Balbi í sumar.

Þetta er leikinn miðjumaður sem fer vel með boltann og getur skorað mörk.

Pressan á honum er ekki mikil fyrir tímabilið þannig að vonandi nær hann að blómstra.



Spá Vísis og Fréttablaðsins fyrir Pepsi-deild karla sumarið 2014:

1. sæti KR

2. sæti FH

3. sæti Breiðablik

4. sæti Stjarnan

5. sæti Valur

6. sæti ÍBV

7. sæti Þór

8. sæti Fram

9. sæti Keflavík

10. sæti Víkingur

11. sæti Fylkir

12. sæti Fjölnir


Tengdar fréttir

Spá FBL og Vísis: Fram hafnar í 8. sæti

Fram er einfaldlega stærsta spurningamerkið fyrir tímabilið enda kemur liðið gríðarlega mikið breytt til leiks, með nýjan þjálfara og hreinlega nýja stefnu í sínum knattspyrnumálum.

Spá FBL og Vísis: ÍBV hafnar í 6. sæti

Eyjamenn mæta til leiks með nýjan þjálfara í Pepsi-deild karla í fótbolta og hafna í sjötta sæti ef marka má spá íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis. Pepsi-deildinni hefst á sunnudaginn.

Spá FBL og Vísis: Keflavík hafnar í 9. sæti

Keflvíkingar verða áfram í neðri hluta Pepsi-deildarinnar ef marka má spá íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis en liðið heldur þó sæti sínu í deildinni. Keflavíkurliðið er spurningamerki en það hefur þó verið að leika ágætlega á undirbúningstímabilinu.

Spá FBL og Vísis: Stjarnan hafnar í 4. sæti

Stjarnan endaði í þriðja sæti Pepsi-deildarinnar í fyrra og tryggði sér þátttökurétt í Evrópukeppni í fyrsta skipti í sögu félagsins. Nýr þjálfari er mættur til starfa en hann nær ekki alveg sama árangri ef spá íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis rætist.

Spá FBL og Vísis: Fjölnir hafnar í 12. sæti

Fréttablaðið og Vísir telur niður í Pepsi-deild karla í knattspyrnu sem hefst sunnudaginn 4. maí. Nýliðum Fjölnis er spáð neðsta sæti deildarinnar og þar með falli úr henni í haust.

Spá FBL og Vísis: FH hafnar í 2. sæti

FH þurfti að sætta sig við silfrið í fyrra í baráttunni við KR en þessi lið munu berjast aftur um Íslandsmeistaratitilinn í ár. Miklu máli skipti að FH tapaði báðum leikjunum gegn KR á síðasta tímabili.

Spá FBL og Vísis: Fylkir hafnar í 11. sæti

Ef marka má spá Fréttablaðsins og Vísis fyrir Pepsi-deildina í knattspyrnu 2014 þá lýkur fimmtán ára samfelldri veru Fylkis í úrvalsdeildinni í haust.

Spá FBL og Vísis: Breiðablik hafnar í 3. sæti

Breiðablik náði frábærum árangri í Evrópudeildinni á síðasta tímabili en því miður fyrir liðið náði það ekki Evrópusæti í deildinni. Þrátt fyrir nokkurn mannamissi er liðið mjög vel mannað og getur hæglega barist um titilinn.

Spá FBL og Vísis: Þór hafnar í 7. sæti

Þórsarar héldu sæti sínu í Pepsi-deildinni í fyrra og gera það nokkuð auðveldlega aftur í sumar ef spá íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis verður að veruleika.

Spá FBL og Vísis: Víkingur hafnar í 10. sæti

Ef marka má spá íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis halda nýliðar Víkings sæti sínu í Pepsi-deild karla með naumindum en liðið er komið aftur í deild þeirra bestu eftir tveggja ára fjarveru.

Spá FBL og Vísis: Valur hafnar í 5. sæti

Valsmenn sigldu lygnan sjó í Pepsi-deildinni á síðasta ári og samkvæmt spá íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis verður niðurstaðan sú sama hjá Valsmönnum í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×