Íslenski boltinn

Spá FBL og Vísis: FH hafnar í 2. sæti

Vísir/Stefán
FH þurfti að sætta sig við silfrið í fyrra í baráttunni við KR en þessi lið munu berjast aftur um Íslandsmeistaratitilinn í ár. Miklu máli skipti að FH tapaði báðum leikjunum gegn KR á síðasta tímabili.

FH-liðið hefur verið mun betra á undirbúningstímabilinu en oft áður en liðið fór snemma í æfingaferð og keppti á sterku móti í Portúgal rétt eins og Breiðablik en það virðist hafa haft góð áhrif á FH-inga.

FH vann Lengjubikarinn með öruggum 4-1 sigri á Breiðabliki í úrslitaleik en þar á undan hafði það unnið KR og Stjörnuna í undanúrslitum og átta liða úrslitum. FH-ingar líta mjög vel út og ætla sér að hirða titilinn af vesturbæingum.



Gengi FH síðustu sex tímabil:

2008 (Íslandsmeistari)

2009 (Íslandsmeistari)

2010 (2. sæti, Bikarmeistari)

2011 (2. sæti)

2012 (Íslandsmeistari)

2013 (2. sæti)      

Íslandsmeistarar: 6 sinnum (Síðast 2012)

Bikarmeistarar: 2 sinnum (2007, 2010)

Tölur FH í Pepsi-deildinni 2013:

Mörk skoruð: 2. sæti (2,14 í leik)

Mörk á sig: 1. sæti (1,00 í leik)

Stig á heimavelli: 3. sæti (22 af 33, 67%)

Stig á útivelli: 1. sæti  (25 af 33, 76%)

Nýju mennirnir:

Kristján Finnbogason (Fylkir)

Sam Hewson (Fram)

Sean Reynolds (Tampa Bay)

Kassim Doumbia (Beveren)

Vísir/Daníel
EINKUNNASPJALDIÐ

Vörnin: 3 stjörnur

FH var með bestu vörnina í fyrra en liðið fékk aðeins á sig 22 mörk. Það missti aftur á móti einn besta leikmann liðsins, Guðmann Þórisson, í atvinnumennsku og þá fótbrotnaði vinstri bakvörðurinn Sam Tillen fyrr í vetur en hann verður ekkert með í sumar.

Varnarleikurinn hefur verið mesti höfuðverkurinn hjá FH-ingum í vetur en hann hefur mögulega verið leystur með komu Malímannsins Kassims Doumbia. Sá strákur er með flotta ferilskrá og ríkir mikil spenna fyrir honum í Hafnafirðinum.

Guðjón Árni Antoníusson mun líklega færa sig yfir í vinstri bakvörðinn í sumar til að leysa Tillen af og Jón Ragnar verður áfram hægra megin en Jón kom flottur inn í FH-liðið í fyrra og sýndi að hann kann sitthvað fyrir sér.

Það er spurning hvort ótraustari varnarleikur hafi áhrif á Róbert Örn Óskarsson í markinu en hann naut mikils trausts frá Guðmanni og félögum á síðasta tímabili.



Sóknin: 5 stjörnur

FH-ingar þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur af sóknarleiknum frekar en fyrri daginn. Þar eru þeir í góðum málum og með fullt af leikmönnum sem geta skorað mörk.

Í sigrinum á KR í Lengjubikarnum á dögunum var framlínan skipuð þeim Ingimundi Níels Óskarssyni, Emil Pálssyni og Ólafi Páli Snorrasyni. Heimir gerði síðan þrefalda skiptingu og inn á komu Atli Guðnason, Atli Viðar Björnsson og Albert Brynjar Ingason. Ótrúleg breidd.

FH-ingar fá mörk allstaðar. Atli Guðna getur skorað, Atli Viðar fékk gullskóinn í fyrra, Albert Brynjar getur skorað og svo hefur Kristján Gauti Emilsson meira að segja verið að raða inn á undirbúningstímabilinu sem og Emil Pálsson.



Þjálfarinn: 5 stjörnur

Þrír Íslandsmeistaratitlar og einn bikarmeistaratitill síðan hann tók við FH-liðinu 2007 segir allt sem segja þarf. Heimir Guðjónsson er búinn að sanna sig sem einn af albestu þjálfurum landsins.

Heimir sýndi svo enn frekar hversu langt hann er kominn í fræðunum í Evrópukeppninni í fyrra þar sem hann var hársbreidd frá því að vera fyrsti maðurinn til að koma íslensku liði í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Heimir stýrir FH-liðinu með harðri hendi en er sanngjarn. Hann hefur lært þá list að spila með fjölmiðlana betur en nokkur og hefur bæði áhrif á sitt lið og önnur lið með orðum sínum í fjölmiðlum landsins. Sá leikur getur líka skipt máli.



Breiddin: 5 stjörnur

Fyrir utan kannski smá spurningarmerki með varnarleikinn er breiddin gífurleg í FH-liðinu. Það eru kostir í vörninni eins og Sean Reynolds, sem tekur sér væntanlega sæti á bekknum núna, og bakvörðurinn ungi Aron Lloyd Green, en annars verða FH-ingar svolítið að treysta á að varnarlínan haldist heil.

Þar fyrir framan er allt í góðum málum. Á miðjunni berjast Davíð Þór Viðarsson, Hólmar Örn Rúnarsson, Sam Hewson, Emil Pálsson og Böðvar Böðvarsson, ungur og efnilegur spilari sem hefur verið mjög flottur í vetur, um þrjár stöðu og minnst var á sóknarleikinn hér framar í greininni. FH-ingar eru vel mannaðir fyrir sumarið.



Liðsstyrkurinn: 3 stjörnur

Sam Hewson er kominn til að styrkja miðjuna en hann hefur smollið eins og flís við rass í uppleggi FH-inga og gæti Englendingurinn hreinlega átt sitt besta sumar hér á landi. Honum líður vel í þessu FH-liði.

Miðvörðurinn Sean Reynolds hefur fáa heillað á vormótunum en miklar væntingar eru bundnar við Kassim Doumbia, sem kom frá Beveren í Belgíu. Þar gæti mögulega verið leikmaður á ferð sem færir FH nær titlinum ef hann spilar jafn vel og ferilskráin hans er flott.



Hefðin: 5 stjörnur

Eins og allir vita hefur verið stanslaus veisla í Kaplakrika frá árinu 2003 þegar liðið náði öðru sæti og valtaði yfir KR, 7-0, á lokadegi Íslandsmótsins.

Sex Íslandsmeistaratitlar, tveir bikarmeistaratitlar, Evrópukeppni á hverju ári og svo hefur liðið aldrei endað neðar en í öðru sæti síðan 2003. Áratugirnir gerast ekki mikið betri en það.

Mikil uppbygging hefur verið í gangi í FH, bæði hjá liðinu og félaginu sjálfu en það er búið að koma sér uppi kannski flottasta heimavelli landsins.

Vísir/Daníel
Lykilmaðurinn: Davíð Þór Viðarsson

Það er hægt að benda á marga í þessu öfluga FH-liði en Davíð Þór er einn af sárafáum í liðinu sem er með öruggt sæti í byrjunarliðinu sé hann heill og spili vel.

Heimkoma hans síðasta sumar skilaði ekki alveg því sem FH-ingar höfðu vonast til, en nú er hann kominn betur inn í hlutina og með heilt undirbúningstímabil í farteskinu.

Davíð hefur það hlutverk að spila fyrir framan vörnina og hjálpa henni. Fyrst varnarlínan er brothættari í fyrra er þeim mun mikilvægara að Davíð eigi mjög gott sumar.



Fylgstu með þessum: Emil Pálsson

Emil hefur verið ein af stjörnum undirbúningstímabilsins en um það er talað hjá leikmönnum annarra liða hversu miklum framförum hann hefur tekið. Hann er orðinn einn af þeim leikmönnum sem önnur lið fagna að sjá á meðal varamanna.

Emil getur spilað fremstur á miðju og þar líður honum best en einnig getur hann leikið úti á kanti sem og í fremstu víglínu þar sem hann hefur verið að spila aðeins í vetur.

Hann skoraði fjögur mörk í sex leikjum í Lengjubikarnum og var einnig að leggja upp. Eru FH-ingar mögulega búnir að finna arftaka Björns Daníels í holunni?



Spá Vísis og Fréttablaðsins fyrir Pepsi-deild karla sumarið 2014:

1. sæti ???

2. sæti FH

3. sæti Breiðablik

4. sæti Stjarnan

5. sæti Valur

6. sæti ÍBV

7. sæti Þór

8. sæti Fram

9. sæti Keflavík

10. sæti Víkingur

11. sæti Fylkir

12. sæti Fjölnir


Tengdar fréttir

Spá FBL og Vísis: Fram hafnar í 8. sæti

Fram er einfaldlega stærsta spurningamerkið fyrir tímabilið enda kemur liðið gríðarlega mikið breytt til leiks, með nýjan þjálfara og hreinlega nýja stefnu í sínum knattspyrnumálum.

Spá FBL og Vísis: ÍBV hafnar í 6. sæti

Eyjamenn mæta til leiks með nýjan þjálfara í Pepsi-deild karla í fótbolta og hafna í sjötta sæti ef marka má spá íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis. Pepsi-deildinni hefst á sunnudaginn.

Spá FBL og Vísis: Keflavík hafnar í 9. sæti

Keflvíkingar verða áfram í neðri hluta Pepsi-deildarinnar ef marka má spá íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis en liðið heldur þó sæti sínu í deildinni. Keflavíkurliðið er spurningamerki en það hefur þó verið að leika ágætlega á undirbúningstímabilinu.

Spá FBL og Vísis: Stjarnan hafnar í 4. sæti

Stjarnan endaði í þriðja sæti Pepsi-deildarinnar í fyrra og tryggði sér þátttökurétt í Evrópukeppni í fyrsta skipti í sögu félagsins. Nýr þjálfari er mættur til starfa en hann nær ekki alveg sama árangri ef spá íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis rætist.

Spá FBL og Vísis: Fjölnir hafnar í 12. sæti

Fréttablaðið og Vísir telur niður í Pepsi-deild karla í knattspyrnu sem hefst sunnudaginn 4. maí. Nýliðum Fjölnis er spáð neðsta sæti deildarinnar og þar með falli úr henni í haust.

Spá FBL og Vísis: Fylkir hafnar í 11. sæti

Ef marka má spá Fréttablaðsins og Vísis fyrir Pepsi-deildina í knattspyrnu 2014 þá lýkur fimmtán ára samfelldri veru Fylkis í úrvalsdeildinni í haust.

Spá FBL og Vísis: Breiðablik hafnar í 3. sæti

Breiðablik náði frábærum árangri í Evrópudeildinni á síðasta tímabili en því miður fyrir liðið náði það ekki Evrópusæti í deildinni. Þrátt fyrir nokkurn mannamissi er liðið mjög vel mannað og getur hæglega barist um titilinn.

Spá FBL og Vísis: Þór hafnar í 7. sæti

Þórsarar héldu sæti sínu í Pepsi-deildinni í fyrra og gera það nokkuð auðveldlega aftur í sumar ef spá íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis verður að veruleika.

Spá FBL og Vísis: Víkingur hafnar í 10. sæti

Ef marka má spá íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis halda nýliðar Víkings sæti sínu í Pepsi-deild karla með naumindum en liðið er komið aftur í deild þeirra bestu eftir tveggja ára fjarveru.

Spá FBL og Vísis: Valur hafnar í 5. sæti

Valsmenn sigldu lygnan sjó í Pepsi-deildinni á síðasta ári og samkvæmt spá íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis verður niðurstaðan sú sama hjá Valsmönnum í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×