Íslenski boltinn

Sigurður Jónsson aftur upp á Skaga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Jónsson.
Sigurður Jónsson. Vísir/Vilhelm
Sigurður Jónsson og Knattspyrnufélag ÍA hafa gert samning um að Sigurður komi inn í víðtækt starf á vegum félagsins en þetta kemur fram á heimasíðu Skagamanna. Sigurður er því aftur kominn á heimaslóðir þar sem hann kom sér í hóp fremstu fótboltamanna ÍA fyrr og síðar.

Sigurður sem er margfaldur Íslandsmeistari með Skagamönnum skrifaði í dag undir samning við ÍA en hann mun meðal annars þjálfa 4. deildarlið Kára í sumar. Kári frá Akranesi og ÍA hafa tekið upp samstarf þar sem 2. flokks leikmenn félagsins munu spila með liði Kára í 4. deildinni.

Sigurður kemur til með að þjálfa lið Kára í sumar auk þess að hjálpa leikmönnum 2. flokks að stíga sín fyrst skref í meistaraflokki félagsins. Hann mun auk þess kom til með að vinna með afrekshóp Knattspyrnufélags ÍA sem inniheldur efnilegustu leikmenn félagsins.

„Knattspyrnufélag ÍA fagnar endurkomu Sigurðar á Akranes og mun njóta góðs af hans gífurlegu reynslu. Sigurður Jónsson er einn sigursælasti leikmaður ÍA í sögunni og hefur víðtæka reynslu sem þjálfari hér á landi og í Svíþjóð þar sem hann þjálfaði m.a úrvaldeildarfélagið Djurgarden um tveggja ára skeið," segir í fréttinni á heimasíðu ÍA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×