Íslenski boltinn

Vill stíga skrefið til fulls og bæta við einum sólarhring

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ólafur Kristjánsson.
Ólafur Kristjánsson. Vísir/Ernir
KSÍ tilkynnti félögunum í gær um breytingu á reglugerð um knattspyrnumót. Nú er mótanefnd heimilt að gera breytingar á niðurröðun leikja eftir 8-liða úrslit bikarkeppninnar hafi lið spilað sex leiki á undangengnum þremur vikum fyrir leik eða innan við 48 tímar liðið frá lokum ferðalags í Evrópuleiki, svo framarlega sem annað liðið óski eftir frestun.

Má fastlega reikna með að þetta komi til vegna uppákomunnar í fyrra þegar Breiðablik spilaði undanúrslitaleik í bikar á sunnudegi, 49 tímum eftir að lenda í Keflavík eftir Evrópuleik gegn Aktobe í Kasakstan.

„Fyrir mitt leyti fagna ég því að menn taki á þessu en varðandi árið í fyrra er þetta ári of seint. Það gekk yfir okkur að spila leikina svona en vonandi verður nú breyting á. Maður getur hæglega verið Skúli fúli yfir þessu öllu en ég fagna því að tekið sé á þessu,“ segir Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks, við Fréttablaðið.

Honum finnst tíminn á milli leikja alls ekki mega vera minni en 48 tímar en vill sjá að bætt sé við einum degi til enn.

„Ég vil stíga skrefið lengra og bæta við sólarhring. 72 tímar eru lágmark. Ég var með rannsókn í fyrra sem ég benti á um áhrif leikjaálags á úrslit leikja og það lá allt á borðinu. Við Rúnar Kristinsson vorum búnir að benda á þetta. Þetta eru engin ný vísindi,“ segir Ólafur Kristjánsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×