Skoðun

Þykir þér vænt um börnin þín?

Úrsúla Jünemann skrifar

Börnin okkar munu erfa landið. Við sem ráðum núna ferðinni að einhverju leyti höfum mikið um það að segja í hvaða ástandi jörðin mun verða þegar börnin og barnabörnin okkar taka við. Munu börnin okkar taka við góðu búi eða er þeim ætlað að glíma við fullt af óleystum vandamálum sem við nennum ekki að reyna að leysa og ýtum bara á undan okkur yfir á næstu kynslóðir. Gjörið þið svo vel, nú eigið þið leik! Og komið þessu nú í lag!



Það er eðlilegt bæði mönnum og dýrum að þykja vænt um afkvæmin sín. Mér þykir líka vænt um börnin mín og ég verð hrygg þegar ég hugsa um framtíð þeirra. Það eru svo mörg vandamál sem hrúgast upp og munu skella með fullum þunga á næstu kynslóðir. Ég ætla alls ekki að mála skrattann á vegginn en við getum ekki lengur horft fram hjá því að alvarlegar breytingar eiga sér stað á okkar ástkæru jörð:



Mannkyninu fer fjölgandi hratt og allir þurfa lífsrými, mat og sérstaklega gott neysluvatn. En ennþá eru menn að menga ár og vötn eins og enginn sé morgundagurinn.



Jörðin okkar er að hitna sökum þess að við sleppum allt of miklu af koltvísýringi út í andrúmsloftið með því að brenna jarðeldsneyti og þá sérstaklega olíu. En samt renna menn hýrum augum til þess möguleika að olíu sé að finna á Drekasvæðinu í staðinn fyrir að þróa aðra vistvænni orkugjafa.



Það er verið að ganga á skóglendi víða um heim og eyðing hitabeltisfrumskóga er þar sérlega ógnvænleg því að þar á sér stað mikil kolefnisbinding sem vinnur á móti gróðurhúsaáhrifum og hnattrænni hitaaukningu.



Jörðin okkar er að drukkna í úrgangi og rusli sem við nennum ekki að vinna úr og endurnýta. Ennþá virðist „hagkvæmara“ að búa til nýtt úr grunnhráefnum heldur en að endurnýta og endurvinna.



Heimshöfin eru að súrna sökum of mikils magns af koltvísýringi. Það þýðir að margar lífverur eiga erfitt með að lifa af. Til dæmis eru skeldýr og kóralar í mikilli hættu sökum þess að kalkefnin eyðast í of súrum sjó. Þetta hefur auðvitað alvarlegar afleiðingar á fiskistofna.



Þetta allt gerist ekki í óráðinni framtíð heldur er að gerast NÚNA! Og heldur áfram að gerast ef við bregðumst ekki við. Hvernig getum við þá brugðist við? Er þetta ekki vonlaust? Ráðum við einhverju?



Við getum gert margt

Lesendur góðir, þið sem hafið nennt að lesa þetta hingað til, hvað getið þið gert? Jú, það er margt sem þið og ég getum gert:



Við getum sagt stopp við stjórnvöld sem sinna ekki umhverfismálum. Við getum mótmælt því að fallega landið okkar verði eyðilagt í þágu einhverrar gróðahyggju. Við getum sagt stopp við frekari stóriðju og virkjunarframkvæmdum, gleymum ekki Drekasvæðinu og varhugaverðum plönum um olíuvinnslu þar.



Við getum kennt börnunum okkar að umgangast náttúruna af virðingu og varkárni. Mörg íslensk börn eru vön að valsa um, brjóta og bramla í leikjum sínum án þess að virða afgirt svæði og viðkvæman gróður.



Við getum notað almenningssamgöngur, hjólað eða gengið stuttar vegalengdir og hvílt bílinn þannig um stund. Og við getum skipulagt okkur betur, sameinast í ferðir og tengt mörg erindi saman í sömu ferð.



Við getum örugglega sleppt því að kaupa plastpoka í hverri búðarferð og koma frekar með margnota innkaupapoka eða nota pappakassa sem falla til í búðinni. Undir ruslið heima er hægt að kaupa vistvæna poka sem eyðast skjótt. Þeir kosta ekki meira en venjulegir innkaupaplastpokar sem verða eftir í náttúrunni í meira en hundrað ár.



Við getum breytt neysluvenjum okkar pínulítið. Við getum keypt vistvænar vörur. Við getum nýtt matvörurnar betur og látið það stundum vera að kaupa alltaf það nýjasta og flottasta.



Hugsum hnattrænt en framkvæmum í okkar nánasta umhverfi. Hver og einn getur lagt sitt lóð á vogarskálina til að börnin fái jörðina afhenta í ekki lakara ástandi en hún er í nú.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×