Íslenski boltinn

Haukur Páll "tók bara hjólið“ vegna meiðslanna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Óvíst er hvort Haukur verður með gegn Keflavík.
Óvíst er hvort Haukur verður með gegn Keflavík. Vísir/Vilhelm
„Það kom smásnúningur á ökklann vegna höggsins. Nú er bara að vinna vel í þessu og sjá hvort maður verður klár fyrir fimmtudaginn,“ segir Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals, en hann fór meiddur af velli undir lok sigurleiksins gegn KR í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta á sunnudagskvöldið.

Haukur fékk hressilega tæklingu frá framherjanum Gary Martin en hann hitti hægri ökklann á fyrirliðanum.

„Ég er búinn að vera í smábasli með ökklann fyrir mótið. Við æfðum í hádeginu en ég tók bara hjólið á meðan strákarnir fóru út í fótbolta. Það er smábólga í þessu en ég er vel vafinn og mér líður betur núna en eftir leik. Það er bara Voltaren og svo keyra þetta í gang,“ segir Haukur og hlær við.

Valur mætir næst Keflavík á heimavelli á fimmtudagskvöldið þannig að Haukur Páll hefur nokkra daga til að jafna sig. Hann er liðinu auðvitað gríðarlega mikilvægur og er sannarlega skarð fyrir skildi þegar hann er ekki með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×