Innlent

„Hugsandi fólk myndi ekki drekka þennan bjór“

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Íslenski hvalabjórinn frá Steðja er harðlega gagnrýndur af breskum náttúruverndarsamtökum. Talsmaður samtakanna segist vona að ferðamenn muni sýna honum þá vanvirðingu sem hann á skilið. Bjórinn, Hvalur 2, er bruggaður með taðreyktum eistum úr langreyðum.

„Þetta er úthugsað bragð, ekki bara til að vanhelga fallega skepnu í útrýmingarhættu með því að nota einn helgasta líkamshluta þess í markaðslegum tilgangi, heldur einnig til að senda fingurinn til verndarsvæða og þeirra sem elska og virða hvali,“ segir Vanessa Williams-Grey, talsmanni WDC-samtakanna, í samtali við Guardian.

Dagbjartur Arilíusson og Svanhildur Valdimarsdóttir, eigendur Brugghúss Steðja.
„Hugsandi fólk myndi ekki drekka þennan bjór með hvalaeistum frekar en það myndi drekka svipaða drykki úr tígrisdýra-, fíla- eða nashyrningaeistum og við vonum, auðvitað, að gestir á Íslandi muni sýna þessu þá vanvirðingu sem það á skilið,“ segir hún einnig í viðtalinu.

Fréttablaðið fjallaði um bjórinn í síðustu viku en þar sagði Dagbjartur Arilíusson, einn eigenda Brugghúss Steðja í Borgarfirði, að tilgangurinn væri að skapa sanna þorrastemningu. „Eistun eru verkuð eftir gamalli íslenskri hefð, léttsöltuð og síðan taðreykt. Við lögðum mikið í þetta og vinnsluferillinn var langur,“ sagði Dagbjartur og upplýsti að hver hver bruggun hafi innihaldið eitt eista.


Tengdar fréttir

Taðreykt hvalseistu notuð í þorrabjórinn

Eigendur Brugghúss Steðja í Borgarfirði hafa þróað bjór sem inniheldur taðreykt eistu úr langreyðum. Eitt heilt eista í hverja bruggun. Heilbrigðiseftirlit Vesturlands gerir engar athugasemdir en það bannaði í fyrra sölu á bjór með hvalmjöli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×