Erlent

Kappræður Repúblikana í nótt:Við hverju má búast?

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það verður hart tekist á í kappræðum Repúblikana í nótt.
Það verður hart tekist á í kappræðum Repúblikana í nótt. Vísir/Getty
Í nótt fara fram þriðju kappræður forsetaframbjóðenda Repúblikanaflokksins. Efni kappræðanna að þessu sinni eru efnahagsmál en CNBC sem sýnir frá kappræðunum auglýsir þær undir slagorðinu 'Þínir peningar, þitt atkvæði'.

Kappræðurnar hefjast á miðnætti en alls taka tíu frambjóðendur þátt af þeim fimmtán sem eru í framboði. Sjá má yfirlit yfir þá sem taka þátt og fyrir hvað þeir standa í myndbandinu hér fyrir neðan.

Stjórnmálaskýrendur ytra búast við því að Donald Trump muni koma inn í kappræðurnar af fullum þunga en á undanförnum dögum hafa komið fram merki um að fylgi hans sé að dvína. Til marks um það leiðir taugaskurðlæknirinn Ben Carson kannanir í Iowa-fylki þar sem fyrstu forkosningarnar fara fram þann 1. febrúar nk.

Það er því talið víst að Trump muni freista þess að hamra á Carson til þess að styrkja stöðu sína á toppnum og er hann í raun byrjaður á þeirri herferð eins og meðfylgjandi tíst sýna.

Þrátt fyrir að komið hafi fram kannanir sem sýni Carson með meira fylgi en Trump á landsvísu sýnir samantekt Huffington Post á 197 könnunum á fylgi frambjóðenda að Trump leiðir enn.

Eins og sjá má eru þeir Trump og Carson með mikið forskot á aðra frambjóðendur og því ljóst að Jeb Bush og Marco Rubio þurfi að eiga stjörnukvöld ætli þeir sér að eiga möguleika á fastri búsetu í Hvíta húsinu næstu árin.

Fylgi Jeb Bush hefur dottið niður frá síðustu kappræðum og hefur Marco Rubio skotist upp fyrir hann en hann situr nú í þriðja sæti. Það þýðir að Rubio færist nær miðjunni á sviðinu í nótt en Bush færist utar.

Rubio þykir hafa staðið sig vel í fyrstu tveimur kappræðunum og telja margir að hann sé besta svar hins hefðbundna kjarna Repúblikanaflokksins við Donald Trump og sá eini sem eigi séns í Hillary Clinton hljóti hún útnefningu Demókrata.

Ef marka má fyrstu tvær kappræðurnar má búast við miklu fjöri en kappræðurnar hefjast, eins og áður sagði á miðnætti. Fyrir þá sem ætla sér að vaka til þess að horfa á kappræðurnar er vert að benda á þessu skemmtilegu bingó-spjöld sem vefsíðan VOX bíður upp á, þau ættu að krydda umræðurnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×