Fótbolti

Ragnar Sigurðsson í liði Evrópumótsins hjá Guardian

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnar Sigurðsson.
Ragnar Sigurðsson. Vísir/EPA
Ragnar Sigurðsson, miðvörður íslenska landsliðsins, er í úrvalsliði hins virta enska miðils Guardian.

Blaðamenn Guardian gáfu öllum leikmönnum einkunn í öllum leikjum Evrópumótsins sem lauk með sigri Portúgals í gær. Fólkið á Guardian hefur nú tekið saman einkunnagjöf sína og frammistaða íslenska miðvarðarins var það góð að hann komst í lið mótsins.

Ragnar fékk 7,2 í meðaleinkunn hjá Guardian fyrir fimm leiki sína á EM í Frakklandi. Í grein Guardian um úrvalsliðið er einnig umfjöllun um okkar mann.

Ragnar stóð sig frábærlega í miðju íslensku varnarinnar við hlið Kára Árnasonar sem fær líka hrós. Guardian segir Ragnar hafa grætt á góðu skipulagi íslenska liðsins og að þessi þrítugi leikmaður Krasnodar gæti nú verið á leiðinni í ensku úrvalsdeildina.

Ragnar skipar varnarlínu úrvalsliðsins ásamt Þjóðverjanum Joshua Kimmich, Ítalanum Giorgio Chiellini og Portúgalanum Raphaël Guerreiro.

Pólverjinn Lukasz Fabianski er í markinu og hafði þar betur í baráttunni við Hannes Þór Halldórsson, markvörð íslenska liðsins.

Pólverjinn Grzegorz Krychowiak er varnatengiliður í úrvalsliðinu og aðrir á miðjunni eru síðan Ivan Perisic frá Króatíu,  Andrés Iniesta frá Spáni, Aaron Ramsey frá Wales og Dmitri Payet frá Frakkland.

Markakóngur mótsins, Frakkinn Antoine Griezmann er síðan einn frammi en hann skoraði sex mörk á EM í ár.

Það er hægt að lesa umfjöllun Guardian um úrvalsliðið hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×