Innlent

Ban Ki-moon væntanlegur til landsins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ban Ki-moon hefur áður komið til Íslands.
Ban Ki-moon hefur áður komið til Íslands. Vísir/Arnþór

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, er væntanlegur til landsins í næsta mánuði. Mun hann flytja stefnuræðu á þingi Arctic Circle - Hringborði Norðurslóða sem haldið verður í Hörpu 7. - 9. október.



Þá mun Nicola Sturgeon, forsætisráðherra Skotlands einnig flytja stefnuræðu en ráðherrar frá ýmsum löndum, forystumenn vísindastofnana, atvinnulífs, heimsþekktra umhverfissamtaka og frumbyggjasamfélaga taka þátt í störfum þingsins.



Ban Ki-moon, hefur gegnt embætti framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2007 er hann tók við af Kofi Annan. Gegndi hann áður embætti utanríkisráðherra Suður-Kóreu. Mun hann láta af störfum í árslok en kosning á nýjum framkvæmdastjóra SÞ stendur nú yfir.

Hefur hann áður komið til Íslands en árið 2013 kom hann hingað til lands í boði Gunnars Braga Sveinssonar, þáverandi utanríkisráðherra og átti hann fundi með helstu ráðamönnum landsins.



Arctic Circle hefur á fáeinum árum orðið stærsti árlegi alþjóðlegi vettvangur um málefni Norðurslóða en á þinginu í ár verður gerð grein fyrir áherslum ríkisstjórnar Barack Obama í formennskutíð Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu, þróun Yamal Nenets, eins helsta norðursvæðis Rússlands, og stefnu Rússlands í málefnum Norðurslóða.



Þá verður einnig greint frá áherslum kanadískra, norskra og danskra stjórnvalda og stofnana, sýn ríkisstjórna Grænlands og Færeyja sem og baráttumálum alþjóðlegu umhverfissamtakanna World Wildlife Fund og Greenpeace.



Sérstakar málstofur verða um framlag stjórnvalda og rannsóknarstofnana í Sviss og Hollandi til þróunar Norðurslóða.


Tengdar fréttir

Vel tekið á móti Ban Ki-moon á Alþingi

Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, er í sinni fyrstu opinberu heimsókn til Íslands. Mikil viðhöfn er í kringum heimsóknina sem hófst á fundi með Gunnari Braga Sveinssyni, utanríkisráðherra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×