Skoðun

Fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar

Þórir Garðarsson skrifar
Áður en ný ríkisstjórn fer að huga að „stóru“ málunum svokölluðu, þá er eitt verkefni sem þarf að afgreiða í hvelli. Aðgerðir í þágu ferðaþjónustunnar þola enga bið, því von er á fleiri ferðamönnum hingað til lands á næsta ári en nokkru sinni fyrr. Þessar aðgerðir þurfa undirbúning og taka tíma. Þær snúast um að innviðir, náttúran og fólkið í landinu séu í stakk búin til að taka við gestunum og stuðla að ánægjulegri upplifun þeirra.

Fjárfesting skynsamleg

Í Vegvísi í ferðaþjónustu liggur fyrir hvað þarf að gera og hvað það kostar. Ný ríkisstjórn þarf einfaldlega að ganga í málið. Ef ekkert verður gert, þá heldur álagið á vegakerfið áfram að vaxa með tilheyrandi skemmdum og aukinni slysahættu. Vinsælir ferðamannastaðir halda áfram að troðast niður og ferðamenn fara heim ósáttir við skort á þjónustu og aðstöðu.

Þjóðarbúið hefur gríðarlega miklar tekjur af ferðamönnum og því er fjárfesting í innviðum ferðaþjónustunnar skynsamleg. Reiknað hefur verið út að ríkið þurfi aðeins að verja um 7% af tekjum sínum af ferðamönnum næstu árin í úrbætur á ferðamannastöðum og uppbyggingu atvinnugreinarinnar.

Ferðamenn á Íslandi eru síst of margir. Á fjölda minni staða og landsvæða um allan heim eru margfalt fleiri ferðamenn án teljandi vandræða, einfaldlega vegna þess að innviðirnir ráða við fjöldann.

Sérstakt ráðuneyti ferðamála

Þrátt fyrir að ferðaþjónustan sé orðin stærsta atvinnugrein landsins, þá sætir hún algjörum afgangi í stjórnsýslunni. Nauðsynlegt er að fá sérstakt ráðuneyti ferðamála í nýrri ríkisstjórn til að koma málunum áfram.

Fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa staðið sig frábærlega við að mæta aukinni ásókn ferðamanna hingað til lands. Ef ríkisvaldið ræðst ekki aðgerðir sem til þess heyra, þá er mikil hætta á afturför í atvinnugreininni - algjörlega að óþörfu.

 

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×