Lífið

Kvótagreifynja selur höll sósíalistaleiðtoga

Jakob Bjarnar skrifar
Ekkert er áhvílandi á eigninni og er leitað tilboða. Vonlaust er að segja til um hvað fæst fyrir 400 fermetra höll í hjarta Reykjavíkur.
Ekkert er áhvílandi á eigninni og er leitað tilboða. Vonlaust er að segja til um hvað fæst fyrir 400 fermetra höll í hjarta Reykjavíkur.
Á söluskrá fasteignavefs Vísis er komin stórglæsileg eign sem staðsett er í hjarta Reykjavíkurborgar, við Þórsgötu 10, 101 Reykjavík. Sannkölluð höll en hús þetta er 400 fermetra alls.

Hús þetta á sér skemmtilega sögu. Það var áður í eigu Gunnars Smára Egilssonar, fyrrverandi ritstjóra Fréttatímans og konu hans Öldu Lóu Leifsdóttur. Gunnar Smári hefur einkum vakið athygli fyrir það á undanförnum vikum og dögum að vinna hörðum höndum að stofnun Sósíalistaflokks Íslands og tala máli launaþræla og fátæks fólks þessa lands. Gunnar Smári seldi þetta veglega hús fyrir nokkrum árum áður en hann og fjölskylda hans fluttust til Frakklands hvar þau voru búsett um hríð.

Seljandi nú er ekki þekkt fyrir það sérstaklega að tala máli verkalýðs en um er að ræða Helgu S. Guðmundsdóttur, fyrrverandi kona Þorsteins Más Baldvinssonar hjá Samherja. Hún er ein auðugasta kona landsins en árið 2009 var hún til dæmis skattadrottning Reykjaness.

Húsið er sem áður sagði stórglæsilegt og er sagt að það hafi nýverið fengið veglega yfirhalningu. Athygli vekur að ekkert er áhvílandi á eigninni. Ekki er sett neitt verð á höllina, heldur óskað tilboða. Vísir bar það undir fasteignasala hversu mikið megi búast við að fáist fyrir eign sem þessa en hann ranghvolfdi í sér augunum og sagði að fasteignaverð í 101 væri orðið sturlað; það væri bara ekkert hægt að segja um það. Frekar en að segja ekki neitt slær hann fram 230 milljónum.

En, annars má finna allar frekari upplýsingar og sjá myndir á fasteignavef Vísis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×