Innlent

Miklar tafir á umferð á Miklubraut: „Við gerum ráð fyrir því að umferð hérna verði komin aftur í eðlilegt horf í lok ágúst“

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Miklar tafir voru á umferð á Miklubraut í dag vegna framkvæmda við gerð göngu- og hjólastígs sem hófust í morgun. Verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg segir að búast megi við töfum á umferð allt fram í ágúst.

Framkvæmdir á Miklubraut við Klambratún hófust í dag en bæta á forgang strætó og almennt umferðaröryggi. Gerð verður strætórein á Miklubraut milli Rauðarárstígs og Lönguhlíðar á akbraut til austurs. Þá verður gerður  hjólastígur og göngustígur meðfram Klambratúni. Akreinum til vesturs var fækkað tímabundið í morgun frá Lönguhlíð að Rauðarárstíg.

„Þetta er breyting sem tekur soldinn tíma að venjast og átta sig á þannig það hefur verið soldil röð hérna upp eftir,“ segir Þór Gunnarsson, verkefnastjóri hjá skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

Hann segir verkefnið vera í takt við stefnu borgarinnar um að efla almenningssamgöngur. Tafir á umferð á svæðinu séu óumflýjanlegar en akreinum fækki aðeins tímabundið.

„Við erum með þreningu núna í vesturátt sem kemur til með að standa út maí og síðan í júní þurfum við að þrengja í báðar áttir og það verður út júní. Í júlí verður svo þrenging í austur. Við gerum ráð fyrir því að umferð hérna verði komin aftur í eðlilegt horf í lok ágúst en heildarverkið er að ljúka í október,“ segir Þór og bætir við að heildarkostnaður við framkvæmdina sé um 350 milljónir króna. Hlutur Reykjavíkurborgar sé um 170 milljónir króna en verkið er unnið í samvinnu við Vegagerðina og Veitur.

Þar sem umferðarþungi inn í miðborgina er mestur á morgnana má gera ráð fyrir mestum töfum á morgunumferðinni og hvetur Þór fólk til að gefa sér rúman tíma. „Þetta er auðvitað þrenging og tafir og það er fyrst og fremst að gefa sér góðan tíma til að komast um,“ segir Þór.   




Fleiri fréttir

Sjá meira


×