Innlent

Rannsóknarnefnd undirstrikar tillögu um vímuakstursstarfshóp

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Maðurinn ók á ofsafengnum hraða á óökuhæfu faratæki.
Maðurinn ók á ofsafengnum hraða á óökuhæfu faratæki. RNSA
Brýnt er að rannsaka hvaða úrræði hafa gefist vel í öðrum löndum og leitt geta til breyttrar hegðunar ökumanna sem aka ítrekað undir áhrifum áfengis, lyfja eða vímugjafa.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa (RNSA) leggur til að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið skipi hóp fagaðila á sviði réttarfars, refsivörslu og meðferðar gegn áfengis- og fíkniefnasýki til að vinna gegn ölvunar- eða fíkniefnaakstri.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar um banaslys sem varð á Öxnadalsheiði í júní 2016. Þar ók ökumaður á fimmtugsaldri á æðisgengnum hraða undir áhrifum lyfja. Reyndi hann framúrakstur með þeim afleiðingum að hann ók aftan á fólksbifreið sem kastaðist á smárútu sem kom úr gagnstæðri átt. Ökumaður fólksbílsins lést.

Áætlað er að maðurinn hafi ekið á allt að 163 km/klst. á bifreið sem var ekki í ökuhæfu ástandi. Þá hafði maðurinn ítrekað komist í kast við lögin vegna fíkniefnaaksturs. Maðurinn var ákærður fyrir manndráp af gáleysi og akstur undir áhrifum fíkniefna.

Með þessari tillögu ítrekar rannsóknarnefndin tillögu í öryggisátt sem nefndin gerði í skýrslu um banaslys sem varð á Hrútafjarðarhálsi í mars 2012. Tillögunni hefur ekki verið fylgt.

Í skýrslunni kemur einnig fram að af átján banaslysum árið 2016 hafi mátt rekja fimm til fíkniefna- og/eða ölvunaraksturs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×