Erlent

Fjáraflari Trump og repúblikana grunaður um að selja áhrif

Kjartan Kjartansson skrifar
Broidy (t.h.) lék lykilhlutverk í að smala saman fé frá fjársterkum aðilum til að fjármagna forsetaframboð Donalds Trump.
Broidy (t.h.) lék lykilhlutverk í að smala saman fé frá fjársterkum aðilum til að fjármagna forsetaframboð Donalds Trump. Vísir/Getty
Bandaríska dómsmálaráðuneytið er nú sagt rannsaka hvort að Elliot Broidy, einn helsti fjáraflari Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Repúblikanaflokksins, hafi reynt að hagnast á ítökum sínum í Trump- stjórninni með því að bjóða erlendum embættismönnum stjórnaraðgerðir í skiptum fyrir tugi milljóna dollara.

Broidy var varastjórnarformaður landsnefndar Repúblikanaflokksins (RNC) en sagði af sér í apríl í kjölfar ásakana um að hann hefði greitt fyrrverandi Playboy-fyrirsætu milljónir dollara fyrir að þegja um kynferðislegt samband þeirra. Michael Cohen, fyrrverandi lögmaður Trump, sá um að gera samninginn fyrir hönd Broidy. Cohen er sjálfur til rannsóknar, grunaður um að hafa svikið út tugmilljóna dollara lán.

Áður hefur verið sagt frá því að Broidy hafi verið milligöngumaður á milli Sameinuðu arabísku furstadæmanna og Trump-stjórnarinnar. Fyrirtæki Broidy hafi fengið mörg hundruð milljóna dollara samninga við furstadæmin.

Rannsókn Roberts Mueller, sérstaka rannsakanda dómsmálaráðuneytisins, sem beinist fyrst og fremst að meintu samráði forsetaframboðs Trump og Rússa er talin hafa teygt út anga sína og náð til mögulegra tilrauna arabaríkisins til að kaupa sér áhrif hjá Trump-stjórninni.

Áform um að fá Trump til að framselja kínverskan andófsmann

Nú segir Washington Post frá rannsókn dómsmálaráðuneytisins á því hvort að Broidy hafi reynt að selja erlendum aðilum stjórnaraðgerðir. Hann er þannig sakaður um að hafa reynt að fá Trump-stjórnina til að framselja Guo Wengui, kínverskan andófsmann sem kínversk stjórnvöld hafa viljað hafa hendur í hári á.

Þá liggja einnig fyrir ásakanir um að Broidy hafi farið fram á 75 milljónir dollara frá malasískum embættismanni gegn því að bandaríska dómsmálaráðuneytið hætti rannsókn á þróunarfélagi malasísku ríkisstjórnarinnar. Najib Razak, fyrrverandi forsætisráðherra Malasíu, hefur verið sakaður um að hafa dregið að sér milljarða dollara úr sjóðnum.

Lögmaður Broidy hafnar ásökununum á hendur honum. Broidy hefur áður sakað ríkisstjórn Katar um að hafa stolið tölvupóstum sínum og lekið þeim í bandaríska fjölmiðla til þess að koma óorði á sig. Ástæðan sé sú að hann hafi sakað Katar um að styðja hryðjuverkastarfsemi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×