Handbolti

Nítjándi sigur Kiel í röð þrátt fyrir níu mörk frá Guðjóni Val

Anton Ingi Leifsson skrifar
Alfreð fer glaður á koddann í kvöld.
Alfreð fer glaður á koddann í kvöld. vísir/getty
Kiel heldur áfram að gera vel í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta en liðið vann í kvöld þriggja marka sigur á Rhein-Neckar Löwen, 31-28, í Íslendingaslag.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Kiel var einu marki yfir í hálfleik, 16-15, eftir að hafa verið mest þremur mörkum undir í fyrri hálfleik, 12-9.

Heimamenn í Kiel mættu ákveðnir út í síðari hálfleikinn og byggðu hægt og rólega upp gott forskot. Þeir leiddu meðal annars 27-23 og 28-24.

Ljónin skoruðu þá þrjú mörk í röð og minnkuðu muninn í eitt mark, 28-27. Nær komust þeir þó ekki og Kiel vann að endingu þriggja marka sigur, 31-28.

Markahæsti maður vallarins var Guðjón Valur Sigurðsson en hann skoraði níu mörk fyrir Löwen. Alexander Petersson gerði fjögur en markahæstur hjá Kiel var Harald Reinkind með sjö.

Kiel hefur nú unnið nítján leiki í röð í öllum keppnum; þýsku deildinni, bikarkeppninni og Evrópukeppni. Alfreð að gera gott mót á sínu síðasta ári með liðið en hann hættir eftir tímabilið með Kiel.

Kiel er þó bara í öðru sæti deildarinnar með 34 stig en á toppnum er Flensurg með 38 stig. Fullt hús stiga eftir nítján leiki. Ótrúlegur árangur en Ljónin fara inn í HM-fríið í þriðja æstinu með 31 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×