Handbolti

Henti sér út af vellinum til að sleppa við tvær mínútur en VAR tekinn | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kristian Bonefeld skömmustulegur.
Kristian Bonefeld skömmustulegur. vísir/skjáskot
Með fyndnari atvikum handboltasögunnar átti sér stað í danska bikarnum í vikunni þegar að Kristian Bonefeld, leikmaður Skandeborg, gerði eins heiðarlega tilraun og hægt er til að komast hjá því að fá tveggja mínútna brottrekstur í bikarleik á móti Nordsjælland.

Skandeborg var manni færri en Bonefeld gleymdi sér aðeins og stökk í vörnina þegar að enn þá voru um 40 sekúndur eftir af refsitímanum. Það er bannað og viðurlögin við brotinu annar tveggja mínútna brottrekstur.

Bonefeld var fyrstur til að átta sig á mistökunum en hvorki dómararnir né ritaraborðið föttuðu að Skandeborgarmenn voru sex í vörn en áttu að vera fimm. Leikmaðurinn fékk þá frábæru hugmynd að hlaupa út að hliðarlínu í miðri sókn Nordsjælland og kasta sér út af.

Danski handboltaheimurinn er búinn að liggja í kasti yfir þessum tilburðum Bonefeld en dómurunum brá svo mikið að þeir skoðuðu atvikið með myndbandstækni og skelltu tveggja mínútna brottrekstri á Bonefeld í kjölfarið.

Sem betur fyrir fyrir leikmanninn hafði þetta ekki áhrif á úrslit leiksins því Skandeborg tryggði sér sæti í Final Four með sigurmarki þegar að þrjár sekúndur voru eftir af leiknum.

Atvikið skondna má sjá með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×