Innlent

Hópur erlendra manna grunaður um stórfelldan sígarettuþjófnað úr Leifsstöð

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. Vísir/Friðrik Þór
Karlmaður á sextugsaldri hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 5. mars næstkomandi vegna gruns um ítrekaðan þjófnað á varningi úr Fríhöfninni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Maðurinn er talinn tilheyra hópi erlendra manna sem hafa stundað skipulagðan þjófnað úr flugstöðinni undanfarna mánuði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum

Síðast þegar maðurinn var handtekinn í flugstöðinni fundust í fórum hans sjö sígarettukarton, áfengi og ilmvötn, samtals að verðmæti um 125 þúsund krónur.

Lögregla telur að maðurinn tilheyri hópi manna af erlendum uppruna sem stundi með skipulögðum hætti þjófnað á dýrum varningi úr verslunum í flugstöðinni, aðallega sígarettum. Fyrst voru höfð afskipti af hópnum í ágúst í fyrra en hluti hans fór þá úr landi. Karlmaðurinn sem var úrskurðaður í gæsluvarðhald er hins vegar búsettur á Íslandi og virðist hann hafa haldið uppteknum hætti.

Starfsemi hópsins fór fram með þeim hætti að mennirnir keyptu ódýra flugmiða, mættu á flugvöllinn og tékkuðu sig inn. Í stað þess að fara í flugið eru mennirnir sagðir hafa látið greipar sópa um verslanir í brottfararsal Keflavíkurflugvallar.

Upp komst um þjófnaðinn þegar þegar tollverðir í flugstöð Leifs Eiríkssonar stöðvuðu ferðir einstaklinga úr hópnum.  Við húsleit á heimilum grunaðra var auk þess lagt hald á talsvert magn sígarettukartona og annars konar varnings sem talinn er þýfi úr verslunum í flugstöðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×