Erlent

Kínversk kona handtekin í klúbbi Trump á Flórída

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump hefur varið stórum hluta forsetatíðar sínar í einkaklúbbi sínum Mar-a-Lago á Flórída. Klúbburinn er opinn félögum og gestum á meðan forsetinn dvelur þar.
Trump hefur varið stórum hluta forsetatíðar sínar í einkaklúbbi sínum Mar-a-Lago á Flórída. Klúbburinn er opinn félögum og gestum á meðan forsetinn dvelur þar. Vísir/EPA
Bandaríska leyniþjónustan handtók kínverska konu í Mar-a-Lago, klúbbi Donalds Trump Bandaríkjaforseta, á Flórída á laugardag. Konan er meðal annars sögð hafa verið með minniskubb með tölvuóværu í fórum sínum. Trump forseti var í klúbbnum við golfleik um helgina.

Reuters-fréttastofan segir að konan hafi verið ákærð fyrir að ljúga að yfirvöldum og að fara inn á afmarkað svæði. Konan hafi farið í gegnum öryggiseftirlit leyniþjónustunnar til að komast inn í klúbbinn. Þar hafi hún framvísað tveimur kínverskum vegabréfum. Henni var hleypt inn þar sem talið var að hún væri ættingi félaga í klúbbnum.

Grunsemdir vöknuðu þó þegar konan átti bágt með að útskýra hvers vegna hún heimsótti Mar-a-Lago. Sagðist hún upphaflega vera þar til að vera viðstödd samkomu Sameinuðu þjóðanna fyrir Bandaríkjamenn af kínverskum ættum. Enginn slíkur viðburður var þó að dagskrá klúbbsins.

Gerði starfsmaður leyniþjónustunni sem annast öryggi forsetans viðvart sem handtók konuna. Við leit fundir fjórir farsímar, fartölva, utanáliggjandi harður diskur og minniskubbur. Rannsókn á minniskubbnum benti til þess að á honum væri tölvuóværa.

Konan tjáði sig ekki þegar mál hennar var tekið fyrir í dómstól á Flórída í gær. Við yfirheyrslur á hún að hafa sagst farið til Flórída að ósk kínversks vinar sem bað hana um að reyna að hitta fjölskyldu forsetans og ræða um efnahagsleg tengsl Bandaríkjanna og Kína, að sögn Washington Post.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×