Enski boltinn

Wenger óttast það að örlögin séu á móti Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah er duglegur að biðjast fyrir en eru örlögin bara á móti Liverpool?
Mohamed Salah er duglegur að biðjast fyrir en eru örlögin bara á móti Liverpool? Getty/Robbie Jay Barratt
Það munaði bara 29,51 millimetrum að eina mark Manchester City á móti Burnley um helgina yrði aldrei mark. Marklínutæknin sýndi aftur á móti að skot Sergio Aguero fór yfir marklínuna og mark Argentínumannsins kom Manchester City aftur upp í toppsætið.

Arsene Wenger, fyrrum knattspyrnustjóri Arsenal, tjáði sig um æsispennandi toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar þegar hann mætti sem sérfræðingur hjá beIN Sports sjónvarpsstöðinni. Manchester City er með eins stigs forskot á Liverpool þegar bæði lið eiga eftir tvo leiki.

Þetta er ekki í fyrsta sinn á leiktíðinni þar sem millimetrarnir eru ekki með Liverpool. Þegar Manchester City vann 2-1 sigur á Liverpool á Ethiad leikvanginum í janúar munaði bara 11 millimetrum að skot Sadio Mane færi yfir marklínuna. Hefði Mané skorað þá væri staðan á toppnum allt önnur en hún er í dag.



„Ég óttast það fyrir hönd Liverpool að Manchester City gæti verið búið að tryggja sér enska meistaratitilinn fyrir lokaumferðina,“ sagði Arsene Wenger en hann býst jafnvel við því að Liverpool tapi stigum á móti Newcastle um næstu helgi.

City gæti þá náð þriggja stiga forskoti og er auk þess með mun betri markatölu en Liverpool liðið.

„Leikmenn Liverpool munu berjast allt til loka en það lítur út fyrir það að örlögin séu bara á móti Liverpool,“ sagði Wenger.

„Þeir voru yfirburðarlið í enska fótboltanum í svo langan tíma og allt í einu hættu þeir að vinna titla eftir 1989-90 tímabilið. Þeir hafa ekki unnið titilinn síðan og alltaf eru það einhver lítil atriði sem fella þá,“ sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×