Enski boltinn

Gary Neville hló að Lukaku í beinni útsendingu Sky Sports

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Romelu Lukaku var alveg búinn á því eftir einn góðan sprett í fyrri hálfleiknum.
Romelu Lukaku var alveg búinn á því eftir einn góðan sprett í fyrri hálfleiknum. Getty/Simon Stacpoole
Gary Neville gerði grín að Manchester United leikmanninum Romelu Lukaku í útsendingu Sky Sports frá leik United og Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Það er formið á belgíska framherjanum sem fékk fyrrum fyrirliða Manchester United til að hlæja í beinni.

Romelu Lukaku hefur ýmist verið hafinn upp til skýjanna eða harðlega gagnrýndur fyrir frammistöðu sína með Manchester United en félagið keypti hann á 75 milljónir punda frá Everton sumarið 2017.

Ole Gunnar Solskjaer, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur oftar en ekki spilað Marcus Rashford sem fremsta mann og Romelu Lukaku hefur oftar en ekki þurft að dúsa á bekknum. Nú velta margir fyrir sér hvort Lukaku fari frá Old Trafford í sumar.

Gary Neville var allt annað en ánægður með form Belgans þegar hann fylgdist með honum í fyrri hálfleiknum á móti Chelsea á Old Trafford í gær.





Gagnrýni Gary Neville kom eftir um hálftíma leik. Lukaku átti þá flottan sprett upp hægri vænginn en átti ekki meira eftir í tankinum þegar var komið að því að skila sér inn í teiginn.  

Lukaku hafði átt stóran þátt í marki Juan Mata í byrjun leiks en á 27. mínútu leit út fyrir að úthaldið væri að bregðast honum.

„Ef ég segi alveg eins og er þá held ég að þetta sé spurning um formið hans,“ sagði Gary Neville.

„Sjáðu hann þarna fyrir utan teig. Hann er alveg búinn á því og er kominn með hendurnar á mjaðmirnar,“ sagði Neville hlæjandi.

Neville gat ekki staðist það að hlæja að Manchester United leikmanninum sem leit út fyrir að hafa nýlega klárað London maraþonið.

„Þetta er vandamálið með Lukaku,“ sagði Neville eftir leikinn. „Hann er frábær þegar hann hleypur með boltann en hann getur síðan ekki tekið meira en einn sprett án bolta,“ sagði Neville.

„Þarna tók hann einn góðan sprett og var algjörlega búinn á því eftir það. Hann leit út fyrir að vera strax orðinn þreyttur eftir einn eða tvo spretti. Það er stór ákvörðun hvað félagið ætlar að gera við hann,“ sagði Gary Neville.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×