Enski boltinn

Ferdinand gæti orðið fyrsti yfirmaður knattspyrnumála hjá Man. Utd.

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ferdinand hefur starfað sem álitsgjafi í sjónvarpi síðan hann lagði skóna á hilluna.
Ferdinand hefur starfað sem álitsgjafi í sjónvarpi síðan hann lagði skóna á hilluna. vísir/getty
Rio Ferdinand kemur til greina sem fyrsti yfirmaður knattspyrnumála hjá Manchester United.

Heimildir Sky Sports herma að Ed Woodward, stjórnarformaður United, hafi rætt við Ferdinand um að sinna þessari nýju stöðu hjá félaginu. Hann vill ganga frá ráðningunni áður en næsta tímabil hefst.

Yfirmaður knattspyrnumála á að hafa umsjón með félagaskiptum, unglingastarfinu og styðja við bakið á þjálfarateymi United.

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri United, ku vera tilbúinn að vinna með yfirmanni knattspyrnumála. Forveri hans í starfi, José Mourinho, var hins vegar á móti ráðningu á manni í þessa stöðu.

Ferdinand lék í tólf ár með United. Á þeim tíma varð hann sex sinnum Englandsmeistari, vann deildabikarinn tvisvar og Meistaradeild Evrópu einu sinni.

Auk Ferdinands hefur United einnig augastað á Paul Mitchell hjá RB Leipzig. Hann starfaði áður hjá Southampton og Tottenham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×