Enski boltinn

Sögulegt fall elsta félags heims

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Það var þungt yfir leikmönnum Notts County þegar lokaflautið gall
Það var þungt yfir leikmönnum Notts County þegar lokaflautið gall vísir/getty
Elsta atvinnumannalið fótboltaheimsins, Notts County, féll í gær úr ensku deildarkeppninni í fyrsta skipti í sögu félagsins eftir tap gegn Swindon Town.

Notts County var stofnað árið 1862 og var eitt af stofnendum deildarkeppninnar á Englandi. County spilaði í D-deildinni í vetur og hefur tímabilið verið þeim erfitt, þrír mismunandi stjórar og fjárhagsvandræði utan vallar.

Þeir þurftu á sigri að halda gegn Swindon og vona að Macclesfield Town tapaði sínum leik til þess að halda sér uppi, en Notts tapaði og Macclesfield gerði jafntefli við Cambridge United.

Í fyrsta skipti í 157 ára sögu félagsins mun það því spila í utandeildinni á næsta tímabili. Notts County er eitt af aðeins 10 félögum sem hafa tekið þátt í deildarkeppninni á Englandi hvert einasta tímabil síðan hún var stofnuð árið 1888. Næsta vetur verða þau níu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×